Stórkostleg stund í Miðgarði - Álftagerðisbræður kveðja stóra sviðið

Í þessum mánuði munu vera 32 ár síðan fjórir bræður frá bænum Álftagerði í Skagafirði sungu yfir moldum föður síns lagið Álftirnar kvaka, er útför hans var gerð frá Víðimýrarkirkju. Síðan hafa þeir átt samleið með Skagfirðingum og raunar landsmönnum öllum, í gleði sem sorg. Nú hafa þeir ákveðið að kveðja stóra sviðið, eins og yfirskrift tónleikaraðar þeirra ber með sér. Aðdáendum er þó nokkur huggun í því að þeir hafa gefið í skyn að heimavöllurinn, Miðgarður, falli ekki endilega undir þá skilgreiningu.

Undirritaðri áskotnuðust miðar á tónleikana í Miðgarði föstudagskvöldið 18. október. Þar var húsfyllir, enda mun uppselt á þrenna tónleika í Miðgarði og tvenna í Eldborgarsal Hörpu. Sungu bræðurnir tvö kvöld í röð í Miðgarði, næstu tvö í Eldborgarsal Hörpu en síðustu tónleikarnir verða haldnir í Miðgarði næstkomandi föstudagskvöld.

Stemningin í húsinu var nánast áþreifanleg á föstudagskvöldið. Hvort sem gestirnir komu úr nærsveitum innan Fjarðar, Þingeyjasýslu, Eyjafirði eða Húnavatnssýslu, skein gleðin úr hverju andliti. Tengdasonur Álftagerðis, sem jafnframt mætti kalla „kynnir Skagafjarðar“, Atli Gunnar Arnórsson, sló á létta strengi í upphafskynningu sinni. Minntist hann meðal annars á þá hugmynd að yfirskrift tónleikanna yrði „Svanasöngur Álftagerðisbræðra,“ en undraðist að það hefði ekki fengið hljómgrunn meðal þeirra. Atli er húmoristi af guðs náð og auk þess skýrmæltur og áheyrilegur og kann þá list að fara alveg að strikinu en ekki yfir það.

Bræðurnir báru það ekki með sér að hafa elst nokkurn skapaðan hlut þó að Óskar gerði óspart grín að hækkandi aldri fyrir þeirra hönd. Einstakleg hljómþýðar raddir þeirra nutu sín vel í Miðgarði og að mínum dómi voru lögin á söngskránni vel valin. Fallegt ættjarðarljóð, melódíur og mörg þeirra kunnug. Enda áttu ýmsir bágt með að standa ekki upp, dilla sér aðeins eða taka eilítið undir. Raunar var um allan tilfinningaskalann að ræða. Þeir bræður, ýmist allir saman eða einn og tveir, hafa fylgt mörgum Skagfirðingnum hinsta spölinn og þeirra notalega nærvera verið mörgum huggum á erfiðri stundu. Mörg af lögunum sem þarna voru sungin hafa þeir flutt á slíkum sundum og því viðbúið að flutningurinn vekti ljúfsárar minningar. En á hinn bóginn voru líka nokkur hressileg lög og kynningar þeirra Atla Gunnars, sem kynnti bæði í upphafi og eftir hlé, og Óskars, sem kynnti á milli laga, kitlaðu hláturtaugarnar. Þannig var, líkt og í lífinu sjálfu, stutt á milli hláturs og gráturs.

Ekkert var til sparað við umgjörð tónleikanna. Skemmtileg lýsing, sem á stundum skapaði t.a.m. viðeigandi stemningu sjöunda áratugarins, ásamt vandaðri hljóðmennsku, átti sinn þátt í að gera tónleikana jafn góða og raun bara vitni. Hljómsveitin var mögnuð, hvort sem um var að ræða Skagfirðingana sem ósjaldan hafa verið í bakgrunni þegar um tónlistarviðburði í héraði er að ræða, eða sérfræðingana sem skipuðu strengjasveitina að sunnan. Punkturinn yfir i-ið var svo að sjálfsögðu Stefán Gíslason við flygilinn. Enda hafa þeir oft lýst því að án Stebba væru þeir hvorki fugl né fiskur. Það var vel til fundið að heiðra þau Stefán og Imbu í Álftagerði, eiginkonu Gísla, í lok tónleikanna, fyrir sitt framlag á ferli þeirra bræðra. Og í tónleikalok stóðu tónleikagestir upp og heiðruðu þá Sigfús, Óskar, Pétur og Gísla, sem að áttu sjálfsögðu vel valin aukalög í handraðanum. Fyrir mína hönd og annarra Skagfirðinga er við hæfi að segja „Takk, Álftagerðisbræður.“

/Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Áður birst í 41. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir