Tókum þetta alla leið - Nýliðar í golfi - Díana Dögg og Dúfa Dröfn

Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og mun Feykir birta viðtöl í næstu blöðum. Díana Dögg Hreinsdóttir og Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir brugðu sér golfdressið í sumar en Dúfa hefur oftast klæðst markmannstreyjunni þegar sportið er annars vegar þar sem hún var öflug á milli stanganna hjá nokkrum liðum í Íslandsmóti KSÍ. Körfuboltabolurinn var líka mikið notaður hér áður fyrr og kannski ekki alveg kominn á herðatréð enn.

„Við tókum þetta alla leið og erum búnar að spila við hvert tækifæri,“ segja þær Díana og Dúfa. Þær eru sammála um að það hafi verið auðvelt að ganga í klúbbinn og að vel hafi verið tekið á móti þeim, allir tilbúnir að leiðbeina og hjálpa. Díana segir að það hafi komið sér á óvart að hún varð ekki geggjað góð strax, en líka að góðu golfararnir geta átt mjög slæm högg líka. Dúfa segir það helst hafa komið sér á óvart hve forfallin hún varð. Þær mæla með að allir prófi íþróttina: „Golf er skemmtileg leið til að fá sér smá göngutúr,“ segir Dúfa.  Sumarið hefur verið eftirminnilegt og skemmtilegt. „Líklega stendur upp úr að hafa náð tveimur fuglum og að hafa náð tvisvar lengra upphafshöggi en Árný þegar við spiluðum saman í vanur/óvanur,“ segir Díana. Dúfa segir sumarið fullt af skemmtilegum atvikum þar sem slegið var út í vatn, gil og í tré – og mikið hlegið.  Dúfa og Díana segjast hafa verið duglegar að taka þátt í mótum og það hafi verið mjög skemmtilegt. Þær eru strax farnar að hlakka til næsta sumars.

@Kristján Bjarni Halldórsson 
Áður birst í 37. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir