Torskilin bæjarnöfn - Skörðugil á Langholti

Teikning Edwins Sacher af torfbænum á Syðra-Skörðugili árið 1936. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Teikning Edwins Sacher af torfbænum á Syðra-Skörðugili árið 1936. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.

Bæirnir eru tveir: Ytra-og Syðra-Skörðugil. Hvor bærinn stendur við gil, en skörð eru engin þar í nánd. Í jarðaskrá Reynistaðarklausturs, ársett 1446, er ritað Skarðagile (Dipl. Ísl. IV. b., bls. 701); er svo að sjá, sem þá hafi bærinn verið aðeins einn. Og í kúgildaskrá Hólastóls, árið 1449, er bærinn líka nefndur Skardagile (Dipl. Ísl. IV. b., bls. 35).

Hjerumbil 100 árum síðar finst ritað Skörðugil, eða Skorðugil. Er það í Sigurðarregistri 1525 (Dipl. IX. bls. 301). Og í eignaskrá Hólastaðar 1550 er það líka Skorðugil (Dipl. Ísl. XI. bls. 861). Jarðabækurnar hafa auðvitað Skörðugil (Ný jarðabók, bls. 107 og Johnsens Jarðatal, bls. 259). Skarðagil virðist upprunalegast, og þá er nafnið skiljanlegt: Einmitt frá þessum bæjum blasa við tvö stór skörð í vesturfjöllunum: Vatnsskarð og Reykjaskarð, og þaðan sjest bezt í þau bæði í senn. Útsýn til skarðanna var næg ástæða til bæjarnafnsins. En breytingin á nafninu er merkileg. 

Annaðhvort er ástæðan u hljóðvarp (u hljóðv. er æfagamalt og kemur auðvitað fram í Skörð af Skarð, en sú breyting hefir orðið mörgum öldum áður en bæjarnafnið þektist, sbr. lönd af land, eldra landu o.fl.), sem þó er ólíklegt, því að þá hefði nafnið fyrst breyzt í Skarðugil. Hitt er miklu sennilegra, að nafnið hafi breyzt, þegar farið var að segja „upp á Skörð“ „fram á Skörð“, sem er ætíð sagt nú, og almenn málvenja að kalla þau aðeins „Skörðin“ (sbr. Hjeraðsvötn, ætíð kölluð „Vötnin“). Bersýnilega er nútíðarnafnið skörðu- afbökun af skarð, og rjett er því að rita Skarðagil. Í því er vit.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir