Við eigum nýja stjórnarskrá

Eitt ár er í dag síðan forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tók við yfir 43 þúsund staðfestum undirskriftum kjósenda þar sem hins sjálfsagða var krafist, að úrslit kosninga yrðu virt og nýja stjórnarskráin lögfest. Við vitum að í lýðræðisríki eru úrslit löglegra kosninga virt. Alltaf og afdráttarlaust. Að brjóta þá grundvallarreglu getur ekki gengið til lengdar. Það er því aðeins tímaspursmál hvenær Alþingi lögfestir nýju stjórnarskrána. Meðan það er ógert hangir skömm yfir stjórnmálum landsins.

Í dag eru líka níu ár frá því að Alþingi boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Fyrir kjósendur voru lagðar tillögur sem voru niðurstaða af löngu og lýðræðislegu ferli. Kjósendur svöruðu afdráttarlaust. Yfir 2/3 hlutar (67%) samþykktu að þessar tillögur skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár Íslands. Hið lýðræðislega ferli vakti heimsathygli og gerir enn. Sama er að segja um útkomu ferlisins. Í skýrslu alþjóðlegs rannsóknarteymis, sem stundar samanburðarrannsóknir á stjórnarskrám heimsins (e. The Comparative Constitutions Project), er niðurstaða prófessoranna Zachary Elkins við háskólann í Texas, Tom Ginsburg við háskólann í Chicago og James Melton við University College í London þessi:

„Endurskoðunarferli stjórnarskrár Íslands hefur einkennst af ákaflega mikilli nýbreytni og víðtækri þátttöku. Þótt frumvarpið standi traustum fótum í stjórnskipunarhefð Íslands eins og hún birtist í stjórnarskránni frá árinu 1944 endurspeglar það einnig umtalsvert framlag almennings til verksins og myndi marka mikilvægt táknrænt uppgjör við liðna tíð. Frumvarpið er einnig í fremstu röð hvað varðar að tryggja aðild almennings að ákvörðunum stjórnvalda. Við teljum að sá þáttur hafi stuðlað að langlífi stjórnskipunarlaga í öðrum löndum.“

Ef hafa á í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og úrslit löglegra kosninga þarf Alþingi lögfesta nýju stjórnarskrána í samræmi við framkominn vilja kjósenda. Fullbúið frumvarp lá fyrir þinginu í mars 2013. Þingmönnum ber að sýna umbjóðendum sínum heilindi og trúnað og ljúka verkinu með lýðræði og almannahagsmuni að leiðarljósi. Ekki sérhagsmuni. Eftir það verður nýja stjórnarskráin enn borin undir atkvæði kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Við eigum nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrárfélagiðmun áfram berjast fyrir henni með öðrum almannasamtökum og sístækkandi hópi fólks uns hún verður lögfest.

Reykjavík, 20. október 2021
F. h. Stjórnarskrárfélagsins,
Katrín Oddsdóttir, formaður

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir