Við erum tilbúin í slaginn!

ByggðaListinn er ferskur andblær á sviði sveitarstjórnarmála í Skagafirði og samanstendur af fjölbreyttum hópi fólks sem sækir rætur sínar um allt héraðið. Við teljum að við getum bætt okkar góða samfélag með samvinnu og samheldni að leiðarljósi og höfum við unnið eftir þeim sjónarmiðum frá því listinn var stofnaður. Þekking og reynsla frambjóðenda er víðtæk, en það er ótvíræður styrkleiki.

Jafnframt tileinkum við okkur lausnarmiðaðan hugsunarhátt sem mun koma sér vel þegar kemur að því að mæta þeim áskorunum sem framundan eru á komandi kjörtímabili. ByggðaListinn var ekki stofnaður til að valda byltingu í Skagafirði, heldur sjáum við þörf fyrir breyttar áherslur í störfum sveitarfélagsins þar sem hlúð er betur að grunnstoðum samfélagsins. Grunnstoðirnar eru okkur hjartans mál enda eru þær forsenda þess að íbúum geti fjölgað og mannlíf blómstrað í sveitarfélaginu öllu. Eins þurfum við að halda vel utan um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað, með það í huga að bæta um betur.

Í nútímasamfélagi er krafa um stöðugar umbætur því án þeirra horfumst við í augu við stöðnun. Í því samhengi er nauðsynlegt að fá fersk sjónarmið og ný augu til að sjá hvað má gera enn betur og þar kemur ByggðaListinn sterkur inn. Við erum vissulega blaut á bak við eyrun en okkur þótti mikilvægt að markmið okkar væru raunhæf, en ekki fjöldi blaðsíðna af loforðum sem erfitt yrði svo að standa við. Markmiðin eru því hnitmiðuð og ekki tæmandi listi yfir þá hluti sem okkur langar til að gera, heldur hluti sem við ætlum að gera.

            Rétt eins og hjá öðrum framboðum er lögð rík áhersla á leik- og grunnskólamál, en óhætt er að segja að þau séu ekki eins og best verður á kosið og eru slík vandamál bæði farin að skapa örvæntingu meðal íbúa og grafa undan byggð. Þessi mál þarf að leysa og koma í varanlegt horf sem allra fyrst.                      

            Hvað atvinnuuppbyggingu varðar þá er gífurlega mikilvægt að auka atvinnutækifæri alls staðar í sveitarfélaginu og styðja við bakið á nýjum hugmyndum og verkefnum og auka þannig fjölbreytni. Á þann hátt sköpum við ríkara samfélag til framtíðar, hvort sem litið er til fjárhags, mannauðs eða menningar.

            Ljóst er að brýn þörf er á að vinna nýtt deiliskipulag fyrir alla þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, en það er málefni sem hefur hvað eftir annað komið upp á okkar íbúafundum. Jafnframt verður þá hægt að fjölga skipulögðum lóðum í öllum þéttbýliskjörnum, en markaðssetning þeirra er einnig mjög mikilvæg. Það að geta boðið upp á fallegar vel skipulagðar lóðir er forsenda þess að fólk vilji byggja sér framtíðar heimili á viðkomandi stað. 

            Mikilvægt er að styðja vel við alla þjónustu við eldri borgara, efla félagslega heimaþjónustu og sjá til þess að heimsending matar sé ekki háð búsetu í þéttbýli. Jafnframt hefur okkur ítrekað verið bent á mikilvægi þess að bæta aðgengi fyrir fólk með fötlun og þykir okkur það sjálfsagt forgangsverkefni.

            Hvað varðar stjórnsýsluna þá er það okkur mjög hugleikið að meira samráð sé haft við íbúa sveitarfélagsins og reglulegir íbúafundir haldnir þar sem fram fara kynningar á málefnum og framkvæmdum. Jafnframt hefur það verið tíðrætt á fundum okkar með íbúum að mikilvægt sé að auka aðgengi íbúa að fjárhagsupplýsingum sveitarfélagsins þar sem að gegnsæi, trúverðugleiki og gott aðgengi haldast í hendur.

            Varðandi flokkun sorps og sorphirðu, þá teljum við afar mikilvægt að sú starfsemi verði skilvirkari og vaktaðar sorpmóttökustöðvar verði sem víðast. Eins er vonandi að það tilraunaverkefni sem verið hefur í gangi í Hegranesinu og hefur mælst vel fyrir, verði til þess að flokkun verði tekin upp í dreifbýlinu öllu.

            Umfjöllunin hér að ofan er stutt samantekt á aðalatriðum úr málefnaskrá okkar en þar er að finna ýmis fleiri atriði sem við viljum leggja áherslu á og hvetjum við ykkur til að kynna ykkur þau. Málefnaskrána er að finna bæði á fjésbókarsíðu ByggðaListans (xlByggðalistinn) og í Sjónhorninu frá því í síðustu viku.

            Samfélagið okkar er gott en það er kominn tími á ferskan andblæ í sveitarstjórnarmálin, en slíkt mun koma til með að auðga og efla samfélagið í heild. Þrátt fyrir að við séum ekki reynsluboltar í sveitarstjórnarmálum, þá teljum við okkur síst verr til þess fallin að taka þátt. Við erum hugsjónafólk sem stöndum þétt saman og viljum leggja okkar að mörkum til að bæta samfélagið okkar hér í Skagafirði og við erum tilbúin að taka slaginn!

 

Frambjóðendur ByggðaListans

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir