Vináttan :: Áskorandinn Karl Jónsson – Brottfluttur Króksari

Ég er minntur á það rækilega þessa dagana hvað æskuvináttan er sterk og hvað hún mótaði mig mikið. Alla lífsleiðina eignast maður vini og kunningja en alltaf er það æskuvináttan sem er og verður sterkust. Hún krefst í raun einskis. Hún krefst ekki daglegs sambands lengur, það geta liðið vikur á milli samtala, en æskuvinirnir eru bara þarna og daglega hugsa ég til þeirra, hvernig þeim líði og hvort það sé ekki allt í lagi.

En hvað er það við æskuvináttuna sem gerir hana svona sterka? Þetta eru mikilvægustu og jafnframt viðkvæmustu mótunarár hvers einstaklings. Saman taka menn út þroskann á þessu aldursskeiði og upplifa margt í fyrsta skiptið. Haldast í hendur upp skólagönguna og jafnvel alla leið út framhaldsskólann. En síðan skilja leiðir, menn halda hver í sína áttina og byggja sér líf og búa til fjölskyldur og framtíð. En alltaf eru æskuvinirnir þarna.

Í tengslum við vinnu og áhugamál eignumst við vini og kunningja. Við deilum með þeim samtímanum og búum til minningar með þeim í hinu daglega lífi okkar. Við ferðumst með þeim til útlanda, förum í skíðaferðir, sumarbústað og hvaðeina. Ég hef eignast góða vini í samtímanum sem gætu allt eins hafa verið æskuvinir mínir. En alltaf eru æskuvinirnir þarna á þessum stalli.

Vonandi eru allir svo heppnir að eiga maka sem er besti vinurinn. Við getum trúað besta vininum fyrir því hvernig okkur líður, sótt til hans huggun þegar okkur líður illa, glaðst með honum og fíflast og deilt sorg og áskorunum. Og það á líka að vera gott að þegja með besta vininum. Það getur slest upp á vinskapinn við besta vininn eins og gengur en af því að hann er besti vinurinn, þá er hægt að tala saman og ræða sig niður á lausnir með gagnkvæmri virðingu og tillitssemi að leiðarljósi. Alveg eins og æskuvinirnir gerðu. Það komu fýlukaflar, jafnvel tímabundin vinslit, en böndin sem bundust héldu alltaf og styrktust við hvert atvik.

Ég er svo heppinn að eiga fallega vináttu við mína æskuvini. Þeim hefur farnast vel, ég er stoltur af þeim og því sem þeir hafa gert og ég er óendanlega þakklátur fyrir að okkar leiðir hafi legið saman. Tilviljanir leiða menn oft saman og þannig eignaðist ég fyrsta æskuvininn minn. Mamma var að búa mig í skólann fyrsta skóladaginn þegar ég var 6 ára, lítur út um gluggann og sér þar bústinn glókoll með rauðar eplakinnar að bjástra eitthvað við runnana. Hún kallar út og spyr hvort hann sé á leiðinni í skólann. Hann játti því og þá varð til þessi gullna setning sem lifað hefur með okkur síðan: „ Ertu til í að bíða eftir honum Kalla, hann er að klæða sig í síðu nærbuxurnar:“ Ég hef reyndar trú á að leiðir okkar hefðu engu að síður legið saman undir öðrum kringumstæðum hvort sem er, algjörlega óháð síðum nærbuxum.

Ég vona að þið eigið æskuvini. Þið þurfið ekki að vera í daglegu sambandi, en gott að slá á þráðinn annað slagið og bara kanna hvernig þeir hafa það. Henda skilaboðum á Facebook - jafnvel sömu gömlu síendurteknu brandararnir rifja upp góða tíma. Það þekkja mínir æskuvinir alla vega. Það er engin keppni um hver hringir oftast og af hverju á að hringja í einhvern sem hringir aldrei í þig. Þannig virka ekki æskuvinir, þeir eru þarna, hafa alltaf verið og skipa efstu hilluna í hópi vina og kunningja.

Ég skora á frænda minn Jón Brynjar að skrifa næsta áskorendapistil.

Áður birst í 16. tl. Feykis 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir