Vinnuvakan er á sunnudaginn 8.mars

Útsaumaðir dúkar til sýnis á vinnuvöku 2019. Aðsendar myndir.
Útsaumaðir dúkar til sýnis á vinnuvöku 2019. Aðsendar myndir.

Hin árlega Vinnuvaka Sambands skagfirskra kvenna verður haldin í Varmahlíðarskóla næstkomandi sunnudag, 8. mars, kl.15-17. Samband skagfirskra kvenna er samstarfsvettvangur allra starfandi kvenfélaga í Skagafirði. Kvenfélögin eru tíu og um 240 konur starfa innan þeirra. Meðal samstarfsverkefna kvenfélaganna er að halda svokallaða Vinnuvöku í byrjun mars.

Kaffihlaðborðið er ekki af lakara taginu á Vinnuvökunni.

Vinnuvakan var fyrst haldin árið 1982, það ár var ár aldraðra og í tilefni af því komu konur víða um land saman í sínum héruðum eina helgi til að útbúa hluti fyrir basar. Ágóðinn af basarnum rann síðan til góðgerðarmála. Samband skagfirskra kvenna heldur enn þessum sið, þótt framkvæmdin sé ekki með nákvæmlega sama hætti og 1982. Nú er það fyrst og fremst kaffisala, þar sem boðið er til glæsilegs kaffihlaðborðs auk köku- og munabasars. Nú skipta kvenfélögin með sér verkum í framkvæmd Vinnuvökunnar, bakstri og öðru sem þarf að sinna.

Undanfarin ár hafa verið haldnar þematengdar sýningar á Vinnuvökunni. Þema vinnuvökunnar þetta árið eru skírnarkjólar. Ef að líkum lætur verða margar gersemar af því taginu til sýnis á Vinnuvökunni.

Sú ákvörðun var tekin á fyrstu árum Vinnuvökunnar, að ágóðinn ætti aldrei að fara úr héraði og aldrei til einstaklinga. Verður ekki brugðið út af þeim vana þetta árið. Að þessu sinni mun ágóðinn renna óskiptur til tækjakaupa vegna sjúkraþjálfunar og endurhæfingar barna á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.

Eitt af markmiðum kvenfélaganna í landinu er að styrkja góð málefni og stuðla að góðum verkum í samfélagi sínu. Þar láta skagfirskar kvenfélagskonur ekki sitt eftir liggja. Eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir ómetanlegt starf í þágu samfélagsins.

Stjórn sambandsins skipa: Björg Baldursdóttir, Hátúni, Aldís Axelsdóttir, Laufhóli, Valgerður Inga Kjartansdóttir, Hóli, Guðrún Kristín Eiríksdóttir, Sólheimum, Sigurveig Dögg Þormóðsdóttir, Sauðárkróki, Sigurlína Kristinsdóttir, Sauðárkróki, og  María Reykdal, Starrastöðum

Björg Baldursdóttir,
formaður Sambands skagfirskra kvenna

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir