Ættleiddu marhnút í Sauðárkrókshöfn

Hjónin Kári og Ingibjörg á Sauðárkróki riðu á vaðið í átakinu „Ættleiddu marhnút“ á dögunum og ættleiddu marhnút sem sannarlega má telja til ófrýnilegri fiska sjávar.

Átakið fór formlega af stað fyrir 5 árum og var markmiðið með því að sýna þessum ljóta fiski þá virðingu sem hann á skilið að sögn aðstandenda. Enginn hefur hins vegar ættleitt marhnút fyrr en núna þegar þau Kári og Ingibjörg stíga fram og taka þátt í átakinu.

En hvað varð til þess að þau ákváðu að gera þetta? – Við rákumst á þetta átak af tilviljun á netinu og heilluðumst strax af því. Það kom okkur í opna skjöldu að enginn hafði stigið þetta skref að ættleiða marhnút og því ákváðum við að vera fyrst til þess, með von um að aðrir fylgi á eftir.

Þau Kári og Ingibjörg ættleiddu marhnút í höfninni eins og áður sagði. Þau vitja hans daglega, gefa honum góðan mat og svo fá þau að taka hann heim með sér um helgar. – Við útbjuggum sérstakt búr heima í stofu og þangað leyfum við honum að koma um helgar. Hann virðist taka þessu vel, er mjög líflegur og kátur þegar hann er heima og svo á mánudagsmorgnum þegar við förum í vinnu, förum við með hann aftur út á höfn, þar sem hann leikur sér daglangt við félaga sína.

Marhnúturinn er orðinn mjög gæfur segja þau hjón og kemur hann alltaf syndandi til þeirra þegar þau kalla á hann. – Við köllum hann bara Marra, okkur finnst það skemmtilegt og viðeigandi nafn, segja þau Kári og Ingibjörg kampakát að lokum í spjallinu við Dreifarann.

Til fróðleiks má geta þess að marhnútur hefur einnig gengi undir nöfnunum marsi, marsadóni, mörúlfur eða púi. Nánar má lesa um átakið á vefsíðunni púi.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir