Bakklórsbíllinn tekur til starfa

Elías Magnús Magnúss hafði verið atvinnulaus um margar mánaða skeið þegar hann sótti námskeið fyrir frumkvöðla með snjallar viðskiptahugmyndir. Þar vann Elías með hugmynd sína sem nú er orðin að veruleika.

Elíast hefur nú stofnað fyrirtækið Bakklór ehf sem rekur Bakklórsbílinn, en bíllinn er til þess ætlaður að fara á milli staða og sinna fólki sem þarf á bakklóri að halda. "Það er ótrúlega mörgum sem finnst gott að láta klóra sér á bakinu en hafa kannski ekki fólk í kring um sig sem er tilbúið í gera það," sagði Elías í samtali við Dreifarann og bætti við að hann hefði látið sér vaxa neglur til að geta sinnt sínum viðskiptavinum sem best og notar m.a. efni við að herða neglurnar meira en gengur og gerist.

"Ég ætla að bjóða upp á þessa þjónustu bæði í heimahúsum sem og á vinnustöðum og getur fólk bara hringt í mig og bókað tíma. Það er misjafnt hvenær fólk þarf á þessu að halda yfir daginn en ég er ávallt tilbúinn að koma og þjónusta fólk. Reyndar verður kvöldtaxtinn aðeins hærri, en ef fólk er kannski að horfa á  þætti eða bíómyndir í sjónvarpinu sem mér finnst líka skemmtilegt, að þá er aldrei að vita nema maður slái aðeins af kvöldtaxtanum," sagði Elías.

Bakklórsbíllinn er sérhannaður bíll, þar sem Elíast getur líka tekið gangandi vegfarendur í bakklór bakatil í bílnum. "Já ég fór þá leið að útbúa gamalt Rúgbrauð sem ég átti í þetta verkefni og þangað inn get ég tekið á móti fólki af götunni. Þörfin fyrir bakklór getur komið hvenær sem er, t.d. þegar fólk er á gangi í eða úr vinnu eða bara í heilsubótargöngunni. Þá fer mann stundum að klæja á bakinu og þá er gott að geta hringt í mig og ég kem um leið og veiti þessa þjónustu."

Viðskiptahugmynd Elíasar fékk sérstaka viðurkenningu á námskeiðinu og hefur Elías áhuga á að færa út kvíarnar. "En það verður nú enginn 2007 bragur á þessu, ég ætla að byggja upp fyrirtæki mitt í rólegheitum og passa mig á því að steypa mér ekki í skuldir í einhverjum uppbyggingardraumum," sagði hinn skynsami Elías að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir