Bökur úr afgöngum slá í gegn

Sigfríður Sigvaldadóttir á Hvammstanga hefur hafið framleiðslu á bökum í eldhúsinu heima hjá sér á Hvammstanga. Urðu bökurnar til einn daginn fyrir slysni í raun. Sigfríður var að taka til snarl handa húsbóndanum, sletti deigi í form og henti út í það ýmsum afgöngum úr ísskápnum. –Þetta sló heldur betur í gegn hjá honum Bjössa mínum, sagði Sigfríður í samtali við Dreifarann. –Hann bað bara um meira en því miður átti ég ekki sömu afganga og áður og því fór annað hráefni í næstu böku og hann varð bara enn ánægðari.

Upp frá þessu fóru þau hjón að hugsa um hvort raunhæft gæti verið að fara að fjöldaframleiða þessar bökur, en komust fljótt að því að trúlega félli of lítið til af afgöngum á heimilinu til að standa undir stórri framleiðslu, en það ætti alla vega að vera hægt að framleiða 2-3 bökur daglega. – Við búum auðvitað bara tvö í kotinu og því eru afgangarnir ekki miklir hjá okkur. Það skemmtilega við bökurnar er að maður veit aldrei hvernig þær verða á endanum, því afgangarnir sem í þær eru notaðar, eru ekki alltaf þeir sömu, sagði Sigfríður.

Þegar hafa bökurnar slegið í gegn á Hvammstanga en þær eru til sölu í kaupfélaginu og fá færri bökur en vilja, þar sem aðeins eru framleiddar 2-3 á dag. Hafa því myndast biðraðir við kaupfélagið þegar það opnar á morgnana og jafnvel hefur orðið vart við ryskingar þegar viðskiptavinir hlaupa að bökustandinum. Sigfríður hyggst kynna bökurnar í kaupfélaginu í dag föstudag á milli kl. 17 og 18.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir