Býður upp á gistingu í beitningarskúr, þrjár hæðir og þurrkloft

Ólafur Eilífsson á Sauðárkróki segist vera orðinn þreyttur á því að heyra að yfir sumartímann vanti gistipláss á Sauðárkróki fyrir ferðamenn sem staðinn sæki. Hann sem er mjög framtakssamur maður, ákvað að gera eitthvað í málinu sjálfur og hefur nú gert beitningarskúr sinn upp og býður þar upp á gistingu, sem hann kallar „háklassa gistingu, með smá fiskilykt“.

Ég er bara einn af þeim sem vill sjá fleiri ferðamenn hingað á Krókinn, sagði Ólafur í samtali við Dreifarann. Það er eins og allir virðist vera að bíða eftir því að eitthvað gerist en ég nenni því ekkert lengur. Ég var hættur að nota beitningarskúrinn minn og fór að skoða hvort hægt væri að rífa hann eitthvað upp í gistihæft ástand, sagði Ólafur.

Og hann sat ekki við orðin tóm, heldur hófst handa og gerbreytti skúrnum og er þar nú gistipláss fyrir 7 manns. –Það var loft þarna hjá mér sem ég geymdi bara drasl og þar uppi er nú komið gistipláss fyrir fjóra og svo geta þrír gist á niðri, útskýrir Ólafur aðspurður um plássið. – Það má segja að þetta séu þrjár hæðir og þurrkloft.

En náði hann að komast fyrir fiskilyktina? –Svona að mestu leyti, hún er ekki alveg farin, segir Ólafur, en það bara kryddar stemninguna. Fólk nú til dags verður bara að skilja að það er ekki hægt að fá allt eins og það vill. Fiskilyktin er til staðar, festist væntanlega eitthvað í fatnaði og farangri, en ég tel að þetta sé einstakt gistihús á landsvísu, þar sem þú getur dvalið í notalegu umhverfi og fengið alvöru fiskilykt í kaupbæti. Hvað er betra niðri við höfnina?, sagði Ólafur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir