Fékk 300 göngugrindur fyrir misskilning

Kristjón Ebeneserson auglýsti í sakleysi sínu eftir göngugrind fyrir son sinn á Barnalandi á dögunum. Eins og siður er á þeim bænum voru fjölmargir tilbúnir að útvega Kristjóni göngugrind og fyrr en varði hafði hann gert samkomulag við manneskju á Barnalandi um kaup á slíkum grip.

Kristjóni brá heldur í brún þegar flutningabíll einn ógurlegur stoppaði fyrir utan húsið hjá honum tveimur dögum síðar og út úr honum voru teknar einar 300 göngugrindur í kössum. Ekki voru þetta göngugrindur fyrir börn, heldur fyrir fullorðna og gamalmenni.

Við nánari skoðun kom í ljós að við innborgun á reikning söluaðilans, sem Kristjón taldi vera að selja venjulegar barnagöngugrindur, hafði hann skriplaði á lyklaborðinu og setti tvö aukanúll við umsamda upphæð. Vegna þessa hélt söluaðilinn að hann ætlaði að kaupa þennan fjölda af göngugrindum og sendi þær þegar af stað, kamapakátur með söluna.

Ekki var því nóg með að Kristjón hefði ekki fengið barnagöngugrind handa syni sínum, heldur fékk hann mörg hundruð göngugrindur sem hann vissi ekkert hvað gera ætti við. Hann reyndi að fá endurgreitt frá söluaðilanum, en hann var á bak og burt og Kristjón fær  því fjárhagslegt tjón sitt ekki bætt. Hann tekur þessu þó með stóískri ró: - Já það er með þetta eins og annað í þessu lífi, maður hefur alltaf um tvær leiðir að velja. Önnur er sú að láta hlutina fara í taugarnar á sér og gera allt erfitt en hin er sú að líta bara björtum augum á hlutina og vera bara sæll og glaður með það sem maður á, sagði Kristjón við Dreifarann. Aðspurður um hvað hann hyggðist gera við allar þessar grindur, sagði Kristjón að það væri talsvert mikið af öldruðu fólki í hans fjölskyldu. – Ætli þetta detti ekki bara í jólapakkana! Ætli þetta verði ekki stóru göngugrindarjólin bara!, sagði Kristjón að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir