Flytur bæði skemmtileg og leiðinleg jólalög

Það er annasamur tími framundan hjá Friðgeiri Garðarssyni. Hann hefur um árabil séð um að flytja jólalög um allar koppagrundir og um þessi jól verður engin breyting þar á.

„Ég byrjaði  nú reyndar í flutningabransanum á því að flytja uppþvottalög. Ég starfaði sem sendill hjá efnagerð sem framleiddi þennan fína uppþvottalög. En svo vatt þetta upp á sig og fyrr en varði var ég beðinn um að flytja jólalög. Ég hófst handa við það í kring um jólin 1988 og hef unnið við það sleitulaust síðan, um hver einustu jól.“

Smekkur fólks er misjafn á jólalögum segir Friðgeir og fær hann oft og iðulega beiðnir um að flytja leiðinleg jólalög og þá helst langt í burtu, þannig að þau heyrist bara úr fjarska. "En maður flytur nú líka mörg af þekktustu jólalögunum og það er  mun skemmtilegra en að flytja þessi leiðinlegu," segir Friðgeir.

Það þarf að koma jólalögunum á sinn stað fyrir jólin segir Friðgeir og taka þau saman aftur eftir jól. Þannig að hann sér fram á annasaman tíma við flutning jólalaga enn eitt árið. „Já þetta er orðinn stór hluti af jólahaldi fjölskyldunnar og við tökum gjarnan öll þátt í þessum jólalagaflutningi,“ sagði Friðgeir að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir