Gengur út í Öfgar á hverjum degi

Kristleifur Jónatansson á Koppi í Austur-Húnavatnssýslu, heldur sér í góðu formi þrátt fyrir að vera orðinn 95 ára gamall. Haldið var upp á afmæli kappans um síðustu helgi og dreif þar að marga vini og vandamenn. – Ætli fólkið haldi ekki að þetta sé síðasta stórafmælið mitt, sagði Kristleifur í samtali við Dreifarann. – En ég er ekkert á því að fara að kveðja þetta líf, ég er heilsuhraustur og glaður í sinni og þó heyrnin sé farin að bresta eilítið, finn ég ekki að elli kerling sé farin að banka á dyrnar hjá mér, segir Kristleifur.

En hvaða galdur er á bak við þessa góðu heilsu? – Ég geng út í Öfgar á hverjum einasta degi. Öfgar eru hrein náttúruparadís hér rétt við bæinn, sannkölluð perla sem ferðafólk hefur ekki tekið eftir ennþá sem betur fer. Ég geng þarna út eftir á hverjum degi og dvel þar góða stund í félagi við máva og aðra fugla.

Í samtali við vini Kristleifs vita þeir ekki hvar þessar Öfgar er að finna og engin örnefni sjáist á kortum eða í annálum sem sanni tilvist þess. – Hins vegar er alltaf megn áfengislykt af Kristleifi þegar hann kemur heim aftur og það hvarflar að okkur að hann fari bara út í skúr á háaloftið þar og staupi sig, sagði náinn vinur hans.

En hvernig sem þetta langlífi er til komið, þá er ljóst að Kristleifur er hress og hraustur karl og öðrum fyrirmynd hvað það varðar, þrátt fyrir árin 95.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir