Graskögglaverksmiðjan nýtt sem álver?

Jón Kristinsson bóndi í Austurdal í Skagafirði er orðinn þreyttur á efnahagsástandinu og er með svörin á hreinu.

 – Það þarf bara að virkja meira og byggja fleiri álver, segir hann. – Hér höfum við þessa fínu sprænu sem hægt er að virkja en enginn virðist sýna því áhuga, segir Jón og bætir við að hann sé byrjaður sjálfur að stífla ánna. – Já ég sletti í þetta 3-4 hjólbörum á dag og er svona að reyna að koma þessu verkefni af stað, annars eru börurnar mínar orðnar dálítið lasnar og ef einhver á góðar börur má hann alveg hafa samband við mig. Jóni reiknast til að það taki hann um 134 ár að stífla ánna með þessu verklagi, - að teknu tilliti til framburðar árinnar, segir hann.

 

Jón er kominn á áttræðisaldurinn en óttast hann ekkert að honum endist ekki ævin í þetta verkefni? – Jú, jú, ég get auðvitað ekki klárað þetta, en ég treysti á að börnin og barnabörnin taki við af mér og klári þetta verkefni og að við komum til með að sjá hér rísa stóra og stæðilega virkjun með tíð og tíma.

 

En hvar ætti að reisa álver? – Við höfum nú þegar fínt húsnæði sem hægt væri að nýta í slíka starfsemi. Graskögglaverksmiðjan í Vallhólmanum er alveg tilvalin fyrir lítið álver, segir Jón og óttast ekki mengunina. – Ég hlusta ekki á þessa svokölluðu umhverfissinna sem vilja bara að þjóðin nærist á berjum og lyngi, álver er eina svarið, þó það mengi smá skiptir það engu máli, segir Jón að lokum og var þar með rokinn með fjórðu hjólbör dagsins niður að ánni í stíflugerðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir