Gunni Gól varð fyrir vonbrigðum með EM 2012

Gunnar Kristinsson, oft kallaður Gunni Gól, hefur átt misjafnar stundir fyrir framan sjónvarpið nú á meðan Evrópumótið í knattspyrnu hefur staðið yfir. Hann hélt með Portúgal, Frakklandi og Englandi en þessi lið voru öll dottin úr leik og leikmenn farnir í sumarfrí þegar Dreifarinn hitti Gunnar að máli.

Gunni, þetta hefur ekki gengið eins og þú reiknaðir með? –Nei, ég var orðinn svekktur meira að segja áður en mótið byrjaði.

Nú, hvað var í gangi? –Nú Rio var ekki valinn í liðið.

Spilar hann með Brasilíu? –Nei, hvað er þetta maður, hann er enskur hann Rio, Rio Ferdinand maður. Spilar með Júnæted á Englandi.

Leeds Júnæted? –Nei nei nei, Manchester maður! Hann spilaði reyndar áður með Leeds en það var áður en ég fór að fylgjast með honum.

Ég þykist skynja að Manchester sé þitt lið? –Já, Júnæted.

Hvernig gekk honum þarna Ryan Giggs á EM? –Uuu... hann fór ekki á EM.

Er hann orðinn of gamall? –Nei, hann er frá Wales, ekki Englandi.

En er hann ekki að spila á Englandi? –Júúú... en þetta EM er sko landsliðakeppni þannig að allir sem spila á Englandi... æji, sleppum þessu.

En hann þarna Rúní, hvernig gekk honum, hann er enskur er það ekki? –Wayne Rooney, jú, hann er Englendingur. Hann var ekki alveg í formi á þessu móti. En hann er alveg magnaður leikmaður. Einn sá besti í heimi.

Nú hélst þú með þremur liðum sem öll eru úr leik. Hvað kom fyrir hjá Frökkum? –Nú þeir tóku Evra út úr liðinu, alveg fáránlegt maður.

Spilar hann í Frakklandi? –Uuu, nei reyndar ekki. Hann spilar með Júnæted á Englandi... Manchester Júnæted.

OK. En hver var uppáhalds leikmaðurinn þinn á mótinu? –Það var Ronaldo.

Já, hver hefur ekki heyrt um hinn brasilíska Rónaldó? –Einmitt vinur. Nei nei nei, Christiano Ronaldo, hann spilar með liði Portúgals. Spilaði áður með Júnæted. Besti leikmaðurinn í heiminum í dag.

Nei, er það ekki þessi sem spilar með Barcelóna? –Messi? Nei, nei hann er ekkert sérstakur. Rónaldó er miklu heilsteyptari leikmaður, hann getur skorað mörk í öllum regnbogans litum, hlaupið með boltann, tekið skærin, geðveikur skotmaður, frábær skallamaður, eldsnöggur, svo er hann svo vel af Guði gerður, glæsilegur leikmaður. Svo þegar hann tekur aukaspyrnur þá er það bara eins og liðið hans sé að fá víti, hann er svo öruggur.

Núnú, gerði hann mörg mörk úr aukaspyrnum á EM? –Hann er alla vega miklu betri en Messi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir