Hann drekkur Fjörmjólk til að gleyma

Árið var Sigurfinni Halldórssyni frá Hofsósi erfitt. Hann hefur þurft að leita langt yfir skammt til að stunda sín bankaviðskipti og þá hefur úrvalið í matvöruverslun sveitarinnar verið í lágmarki eftir að verslunin brann.

Sigfinnur hefur líka átt í erfiðum veikindum, fékk Nóróveiruna um páskana og átt erfitt með að hreyfa sig eftir slæma tognun snemmsumars. Þá hefur uppáhaldsliðinu hans í ensku, Blackpool, gengið afleitlega og féll úr Úrvalsdeildinni í vor.

-Já þetta er búið að vera alveg ömurlegt ár, segir Sigurfinnur. Steininn tók úr þegar allt þetta bull varðandi Landsmót hestamanna reið yfir nú um jólin, þetta er alveg hræðilegt. Ég vil bara gleyma árinu, bara gleyma því og helst strax. Ég hef heyrt talað um að fólk drekki til að gleyma en mér finnst vín vont, bölvaður óþverri barasta. Svo sá ég Fjörmjólkina auglýsta nýverið, hún er engin Nýmjólk því miður, það held ég nú, en hún er víst rík af kalki svo hún ætti að hjálpa mér að gleyma.

Og ertu búinn að gleyma einhverju? –Já blessaður vertu, en ekki þessu slæma, ég man það allt eins og það hefði gerst í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir