Helgi Pís fær (stundum góðar) hugmyndir

Helgi Fannar Antonsson, oft kallaður Helgi Pís, er friðarins maður. Í kjölfarið á umræðu um að lögreglan fengi skammbyssur og stuðbyssur sér til varnar þá hafði Helgi samband við Dreifarann og kvaðst hafa áhyggjur af ofbeldinu í þjóðfélaginu en þóttist hafa fundið friðsamlega lausn.

-Já mér finnst komið nóg af ofbeldi í þjóðfélaginu og held að það sé nú barasta alls ekki til góðs að lögreglan sé á rúntinum veifandi skammbyssum og öðru slíku.

Ókei, og hvað frábæru hugmynd fékkstu Helgi? -Mér datt svona í hug að skammbyssur lörgreglunnar væru þannig útbúnar að ef að lögreglan þyrfti að stöðva atburðarás sem hefði farið úr böndunum þá gætu þeir mætt á svæðið og þegar þeir skytu af byssunni þá spýttist út um hlaupið svona stöng og það félli af  henni rauður borði og á honum stæði einfaldlega “SKAMM!” Samanber skammbyssa skilurðu?

Heldurðu að það væri að gera eitthvað gagn Helgi minn? -Já, jáhá, besta vopnið í baráttunni gegn ofbeldinu er húmorinn. Það er svo augljóst, alveg hreint og klárt. Það myndu allir bófar bara springa úr hlátri ef lögreglan mætti með svona byssu í slagsmál, nú eða rán. Þeir myndu bara lippast niður úr hlátri og þá gæti lögreglan bara klappað á bakið á þeim og sagt: Fariði nú bara heim apakettirnir ykkar, já og ekki gera þetta aftur.

En hvað með stuðbyssurnar? -Ég var nú ekki alveg búinn að útfæra þá hugmynd fullkomlega en ég sá svona fyrir mér að lögreglan þyrfti kannski að hafa afskipti af heimiliserjum eða kannski veisluhöldum þar sem stemningin væri ekki mikil, jafnvel bara vond stemning. Þá væri lögreglan kölluð til og þeir kæmu með stuðbyssurnar sínar. Skilurðu? Ég er svona að hallast að því að byssan sé þannig útbúin að þegar tekið er í gikkinn þá byrji rosaleg stuðmúsík og allir detta í alveg brjálað stuð. Stuðbyssan gæti kallað á aukabúnað sem ég hef verið að pæla svolítið í, nefnilega hátalaravesti, alveg skotheld.

Færðu oft svona hugmyndir Helgi? -Já blessaður vertu. En ekki oft svona góðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir