Herramenn koma saman á ný - Sætaferðir úr Trékyllisvík

Hinir ódauðlegu Herramenn fyrir svolítið löngu síðan

Í tilefni af fimmtugsafmæli trymbilsins Karls Jónssonar, eða Kalla Krata eins og hann er kallaður, mun Hljómsveitin Herramenn koma saman á Mælifelli í kvöld. Feykir.is tók einlægt viðtal við Kalla Krata.

Kalli á bak við trommusettið. Myndirnar eru báðar rosalega stolnar.

Kalli Krati hóf feril sinn sem trymbill með hljómsveitinni Metan sem síðar varð Herramenn.

Eftir að hafa setið við símann heilt kvöld tókst strákunum fyrir um 20 árum að koma lögum inn á vinsældalista og varð lag þeirra Nótt þér hjá hvað vinsælast. Þá sló slagarinn Í útvarpi í gegn á sínum tíma og þykir  furðu sæta að strákarnir hafi ekki fengið verðlaun fyrir þann texta
einan og sér.

Karl flutti frá Króknum í leit að frægð og frama og eftir að hafa þvælst um landið í ein 15 ár snéri hann aftur á Krókinn síðla árs 2006.
-Ég var eitthvað að tromma á Ísafirði og eftir að ég hætti þar sá ég að það eina sem ég átti eftir sem trommari var að fá að tromma hjá Geira (Geirmundi Valtýssyni, innskot blaðamanns). Ég sagði því við konuna, -elskan við flytjum og við fluttum, segir Kalli sem enn hefur ekki fengið ósk sýna uppfyllta. -Ég hef nokkrum sinnum náð augnkontakti við Geirmund en hann hefur enn ekki boðið mér með í hljómsveitina. En ég er þolinmóður maður og minn tími mun koma, bætir Kalli við.

Aðspurður um Herramannaendurkomu lofar Karl miklu stuði. -Við vorum nú hvað vinsælastir í Dölunum og á Ströndum auk þess sem við slógum eftirminnilega í gegn í Trékyllisvík. Ég hef heyrt að þar í vík séu menn að skipuleggja hópferð og hafi þegar verið pantaður langferðabíll í ferðina, segir Kalli.

Hvaða lög munið þið taka? -Það er nú verið að vinna í því þessa dagana að þrengja lagavalið niður en það er nokkuð ljóst að við munum syngja Í útvarpi enda er lagið það lag sem við erum hvað stoltastir af, ekki síst textanum í viðlaginu sem við vorum lengi að klára. Það tók alveg heila nótt að ná að láta hann ríma rétt heima á Hólaveginum.

Hér má heyra lagið Í útvarpi sem hefur ekki hljómað á öldum ljósvakans í 20 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir