Hjólkoppasafnari á ferðinni á Sauðárkróki

Margir bílar á Sauðárkróki hafa tapað hjólkoppum að undanförnu. Ekki hafa allir kopparnir verið teknir af bílunum, heldur bara einn. Rennir það stoðum undir það að hér sé safnari á ferðinni, sem vilji aðeins eitt eintak af hverjum koppi í safnið.

Að sögn lögreglunnar hafa koppar verið teknir af um 20 bílum og eru bíleigendur sérstaklega beðnir um að huga að hjólkoppum sínum.

Hallfreður Grímsson er einn þeirra sem orðið hefur fyrir barðinu á hjólkoppasafnaranum. –Ég kom að bílnum mínum í gærmorgun og sá þá strax að einn hjólkopp vantaði að framan. Valdi nágranni minn hafði sömu sögu að segja, búið var að taka einn hjólkopp af bílnum hans og þetta er mjög bagalegt þar sem yfirleitt er ekki hægt að kaupa einn hjólkopp, heldur þarf maður að kaupa allt settið. Kári hérna handan götunnar lenti í vandræðum þar sem hann var búinn að líma sína hjólkoppa svo kyrfilega á felgurnar að það er engin lífsins leið að ná þeim af aftur, en þetta sýnir bara panikástandið sem gripið hefur um sig hérna, sagði Hallfreður við Dreifarann.

Dreifarinn hvetur fólk til að hafa samband við lögreglu ef það sér til koppasafnarans og vonar innilega að felgusafnari fari ekki á kreik í kjölfarið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir