Kerlingin er nefnilega karl

Síðastliðið sumar var hópur jarðfræðinga við störf í Drangey og er skemmst frá því að segja að þar gerðu þeir stórmerka uppgötvun sem ranghvolfir þeim hugmyndum sem menn höfðu gert sér um sögu eyjunnar og ekki síst Kerlingarinnar. Guðsteinn Kristinn Lewinsky prófessor í kalksteinsmyndunum fræddi Dreifarann um málið.

Hvað voruð þið að gera úti í Drangey Guðsteinn? -Nú við vorum að rannsaka eyjuna hátt og lágt, það er nú það sem við gerum, við rannsökum.

Já, og þið komust að einhverju merkilegu? -Já, jájá, við vorum búin að taka fjölmörg jarðvegssýni um alla eyju og þá ákvað ég að rannsaka kerlinguna aðeins...

Og hvað kom í ljós? - Vertu rólegur, ég kem að því síðar. Nú ég hafði mikið fyrir að klifra upp á Kerlinguna og náði með mikilli þolinmæði litningaprufu úr henni miðri. Og haltu þér nú vinur. Við sendum sýnið á rannsóknarstofu í Edinborg í Skotlandi og þar kom í ljós eftir viðfangsmikla skoðun að hér er um karlmann að ræða.

Ertu að segja að Kerlingin sé karl? -Já, það er nefnilega akkúrat það sem ég er að segja. Þetta sýnir auðvitað best hvað það er viðsjárvert að leggja of mikið út frá einhverjum þjóðsögum. Þetta eru oft ekki merkileg vísindi lagsmaður. Í þjóðsögum segir ef ég man rétt að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir Skagafjörð þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fast fyrir norðan eyna en er nú löngu fallinn.

Þannig að þetta er rangt? -Það er sannað. Staðreyndirnar tala sínu máli. Karlinn er klárlega sunnan eyjar.

Jahá, merkilegt. Og er eitthvað fleira en litningaprufan sem sannar þessa niðurstöðu ykkar? -Jú, við tókum eftir því að það svona bungar út um karlinn miðjan – neðan mittis, þú skilur – og það auðvitað passar við hina vísindalegu niðurstöðu. Þá hefur okkur verið sagt að það hafi komið í ljós í Drangeyjarferðum að konur hrífast mun frekar að klettinum heldur en karlar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir