Kreppuna heim!

Dreifarinn hleraði á kaffistofunni að hópur fólks á Norðvesturlandi hefur nú stofnað samtökin „Kreppuna heim“. Tilgangur samtakanna er að freista þess að ná kreppunni til landshlutans, þar sem það mistókst að ná þenslunni á svæðið á sínum tíma. Illugi Gíslason er forsvarsmaður samtakanna sem byggð eru á rústum félagsins „Góðærið heim“;

 „Já okkur finnst þetta vera hróplega ósanngjarnt og við fáum ekkert af kreppunni frekar en öðru sem ríkisvaldið stendur fyrir“, segir Illugi, en hann er einnig meðlimur í Samtökum áhugamanna um jarðgangagerð sem Dreifarinn fjallaði um í frétt sinni um daginn. „Við reyndum hvað við gátum að ná góðærinu og þenslunni hingað á svæðið en okkur tókst ekki að ná eyrum ráðamanna í þeim efnum og því hreinlega verðum við að berjast fyrir því að kreppan nái hingað til okkar og skelli af fullum þunga á heimilum og fyrirtækjum á svæðinu“, segir Illugi. Hann segir að næg atvinna sé á Norðvesturlandi og hreinlega eftirspurn eftir vinnuafli og það bara gangi ekki. „Við getum ekki alltaf sætt okkur við að vera skilin út undan“, segir Illugi að lokum. Þess má geta að samtökin hafa stofnað heimasíðu á netinu á slóðinni www.kreppunaheim.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir