Leigir út ketti til ýmissa verkefna

Í kreppunni hafa ýmsir tekið upp á ótrúlegustu hlutum til að hafa í sig og á. Núna nýlega opnaði Sigfinnur Eyjólfsson á Sauðárkróki kattaleigu, en þar getur fólk leigt sér ketti til hinna ýmsu nota.

Hugmyndin af kattaleigunni kviknaði hjá Sigfinni fyrir nokkrum vikum síðan, þegar hann varð var við músagang í geymslunni hjá sér. –Þá bölvaði ég því að eiga ekki kött, fór til Stebba í næsta húsi og fékk köttinn hans lánaðan í dagpart. Fyrr en varði lágu fjórar dauðar mýs við fætur mér og Keli alveg alsæll, sagði Sigfinnur við Dreifarann. –Ég haf honum bara fisk að borða og hann fór kátur heim til sín eftir þetta. Þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla hjá mér og ég ákvað að taka nokkra ketti í mína þjónustu og núna leigi ég þá út til hinna ýmsu verkefna, segir Sigfinnur.

Helst blómstrar leigan þegar kemur að músaveiðum, en einnig hefur hann leigt ketti í sérstakar kúristundir, en þá geta leigjendur fengið kött í tvo tíma og nota hann til að kúra hjá köttum, klappa þeim og knúsa segir Sigfinnur. –Ég er líka með sérstaka ketti til undaneldis og getur fólk sem á breimandi læður leigt hjá mér stóra og stæðilega högna í sólarhring, en ég greiði engin meðlög eða neinn kostnað með kettlingum sem kunna að koma í framhaldinu, fólk þarf að skrifa undir sérstaka yfirlýsingu þess efnis, segir Sigfinnur. Þá býður hann upp á það að fólk geti fengið nokkra kettlinga senda heima sér til skemmtunar og ánægju, en kettlingar eru fjörugir að sögn Sigfinns.

Sigfinnur hefur stofnað heimasíðuna kattaleiga.is þar sem allar upplýsingar er hægt að nálgast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir