Má ekki kalla sig „kall andskota“ í símaskránni

Engilbert Ástráðarson á Sauðárkróki óskaði fyrir skömmu eftir því að fá að bæta starfsheitinu „kall andskoti“ aftan við nafnið sitt í skráningu símaskrárinnar. Því var hins vegar hafnað á þeim forsendum að tungutakið samrýmdist ekki hefðum og venjum í símaskránni og væri auk þess ágengt og hálf dónalegt.

Engilbert sagði í samtali við Dreifarann að hann væri undrandi á þessari afgreiðslu, eiginlega alveg forundrandi á þessu. –Í símaskránni eru til mörg fáránleg starfsheiti á bak við nöfn fólks. Má þar nefna snákatemjari, kvennagull, drekabani og þar fram eftir götunum. Vinir mínir og félagar kalla mig kall andskota og hafa gert lengi og mér fannst því alveg tilvalið að ég fengi að aðgreina mig frá nöfnum mínum í símaskránni með þessum hætti, sagði Engilbert.

En á hann marga nafna í símaskránni? –Nei ég er sá eini með þetta föðurnafn, en það skiptir ekki máli, mér finnst ég eiga rétt á því að láta kalla mig það sem ég vil í símaskránni.

Við nánari rannsóknir fundust einnig starfsheiti á borð við svefnáhugamaður, geimkúreki og fleira í þeim dúr, en enginn kall andskoti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir