Með bros á vör og ljós í glugga

Gleðibankinn hvetur þjóðina til að taka ótæpilega út innistæður sínar í bankanum. Þá biður bankinn íbúa þessa lands að sýna friðarhug sinn í verki og setja næstu kvöld áberandi ljós út í þann glugga sem snýr að götu eða friðarkerti við útidyr ef veður leyfir. Megi þeir sem nærast á ofbeldi og eignaspjöllum sjá að landsmenn eru slíku andsnúnir.

Á síðustu vikum hefur nokkur halli verið á viðskiptum Gleðibankans með Bros, Spaug og Hlátra. BSH vísitalan er víst fremur neikvæð þessa dagana.
Það skal undirstrikað að ekki eru bein tengsl milli Gleðibankans og stöðu efnahagsmála. Hins vegar er það Gleðibankanum áhyggjuefni að landsmenn skuli kjósa að leggja inn BSH (bros, spaug og hlátur) en brúka þess í stað YB (ygglibrún) sem er frekar andstyggilegur gjaldmiðill í samskiptum fólks.
Um leið og Gleðibankinn óskar eftir því að landsmenn brúki innistæður sínar sem mest og leggi YB af vill hann taka eftirfarandi fram: Innistæður eru nægar, lánalínur eru tryggar, krosseignatengsl örugg og viðskiptavild ótæmandi.
Í ljósi þessara aðstæðna biður Gleðibankinn mótmælendur efnahagskreppunnar að ganga hratt inn um gleðinnar dyr og stuðla að varanlegum friði milli ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Það er rétt sem forðum var mælt að friður er grundvöllur allra góðra þjóðfélagsaðgerða.

Fyrir hönd Gleðibankans
bankastjórar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir