Ólyktarklemman er græja dagsins

Helgi Arinbjörn Baldursson uppfinningamaður hafði samband við Dreifarann með frábæra viðskiptahugmynd. -Það er Þorláksmessa í dag og eins og alkunna er þá eru margir sem taka upp á þeim óskunda að elda sér skötu eða jafnvel bregða sér í skötuveislu þar sem færi gefst. Nú það kannast allir við bræluna af þessum viðb... ja, rétti og ég fékk því þessa frábæru hugmynd að selja það sem ég vil kalla Ólyktarklemmu.

Nú, mér sýnist þetta bara vera venjuleg þvottaklemma. -Já, laukrétt, í því fellst einmitt snilldin. Þetta er í raun venjuleg þvottaklemma en með því að kalla þetta Ólyktarklemmu þá get ég selt þetta á uppsprengdu verði.

Og smellir maður bara klemmunni yfir nefið? -Já, einmitt, þetta er mjög einfalt en helsti gallinn er kannski að maður verður svolítið nefmæltur með klemmuna á nefinu.

Já og svo lítur maður út eins og asni. -Já, kannski, en í sumum tilfellum bætir þetta ásýnd fólks. Svo er auðvitað snilldin að maður getur notað þessa nýju græju áfram því þegar skötuveislum er lokið taka jólin við og fólk getur nú orðið svolítið kenjótt í maganum þegar það borðar svona veislumat sem það er kannski ekki að borða nema einu sinni á ári. Þá er hætt við því að út sleppi angan sem jafnvel getur dempað hátíðarstemninguna á bestu bæjum og því gott að hafa Ólyktarklemmu við hendina. Hún fer vel í vasa og í raun upplögð jólagjöf ef út í það er farið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir