Ósátt við svör björgunarsveitarmanna

Guðrún Dóróthea Bergþórsdóttir hafði samband við Dreifarann og var örg. Hún segist hafa verið að safna kjarki til að segja sögu sína og nú hafi hún loks ákveðið að slá til en hún er ósátt við þjónustu björgunarsveitarinnar.

Aðspurð segist hún hafa vaknað upp um miðja nótt í suðvestanroki í janúar en þá var eins og danska trommuhljómsveitin Safri Duo væri með tónleika í garðinum hjá henni. –Ég áttaði mig nú fljótt á því að í rokinu höfðu nokkrar dósir – örugglega bjórdósir – fokið inn í garðinn hjá mér og það er svona stétt fyrir utan svefnherbergisgluggann og svo bílskúrsveggur þar norðan við og dósirnar rúlluðu og hentust utan í veggina með því-lík-um há-vað-a að ég var að verða tjúlluð. Guð minn góður. Svo ég hentist á fætur og hringdi í björgunarsveitina og þar voru menn nú ekki að svara í fyrstu hringingu.

Jæja? –Nei, en ég gaf mig sko ekki. Þegar ég sagði þeim frá látunum þá voru þeir bara dónalegir við mig. Spurðu hvort ég gæti ekki skotist út í garð og týnt saman þessar dósir allar saman.

Nú, voru þetta margar dósir? –Alla vega þrjár.

Hvað gerðist svo? –Nú ég sagði eitthvað svona: Það er naumast, þið getið verið að eltast við einhver karlrassgöt sem sitja föst upp um fjöll og firnindi en þegar það er hringt bara hérna innanbæjar þá er það ekki nógu fínt fyrir ykkur.- Sem er svo satt. Ég meina, ég var ekkert klædd til að fara svona út um miðja nótt og veðrið kolbrjálað en þeir eru með galla og allt sem þarf. Mér fannst þetta rooosa-lega lé-legt. Ég sagði karlinum alveg hvað mér fannst.

Hverju svaraði hann? –Hann bað mig bara um að vera rólega. Ég meina það!? Svo er maður að kaupa flugelda af þessum mönnum.

Hvernig endaði þetta mál? –Ég bað hann bara vel að lifa, skellti á og fór aftur í háttinn. Það kom enginn og sótti þessar dósir, ég varð að gera það sjálf næsta dag og þá voru þær frosnar við stéttina. Ég varð að sparka í þær til að losa þær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir