Pikköpp-Palli og Lína

Dreifarinn frétti af skemmtilegu áhugamáli Páls Péturssonar nýlega en Pikköpp-Palli, eins og hann er kallaður, hefur síðustu árin sankað að sér ógrynni af svokölluðum pikk-öpp-línum. Þegar Dreifarinn bankaði upp á kom Sigurlína kona hans til dyranna og bauð gestinum til stofu. Já og að sjálfsögðu er Sigurlína kölluð Pikköpp-Lína.

Dreifarinn byrjar á að spyrja Pál hvenær hann hafi fyrst verið kallaður Pikköpp-Palli og kemst að nokkru fróðlegu. –Það er nú svo skrítið vinur minn að ég var ekkert byrjaður að safna pikk-öpp-línum þegar þetta nafn fór að loða við mig. Ég nefnilega skal segja þér það að haustið 1987 fjárfesti ég í Toyota-jeppa með palli, svona pikköpp jeppa. Ég hélt mikið uppá þennan bíl og þannig kom nú nafnið Pikköpp-Palli til. En svo seldi ég pikköppinn 14. apríl 1998 en var farið að þykja svo vænt um gælunafnið að ég fann mér þetta hobbý, að safna pikk-öpp-línum, til að halda í það.

En þú hefur varla valið þér Sigurlínu, Pikköpp-Línu, bara út af nafninu? –Neee, nei nei, hefurðu heyrt það?

Nei, ég var nú bara að grínast. En segðu mér Palli, hver er eftirminnilegasta pikk-öpp-lína sem þú hefur heyrt um? –Þær eru nú margar hjákátlegar þessar pikk-öpp-línur en ein sú minnistæðasta er maðurinn sem settist hjá dömunni og sagði: -Ég hef séð hús Opruh Winfrey. Hún býr í Chicago.-

Já, jahérna, sannarlega ansi ömurleg lína. Og gerði hún sitt gagn? –Jaaaá, það er ekki laust við það. Þess vegna erum við Lína mín saman.

Já!? Kannski ekki svo vonlaus pikk-öpp-lína eftir allt saman? –Nei, ég var reyndar búinn að pæla svolítið mikið í þessari, var búinn að dunda við að sníða af henni mestu vankantana og svona. Maður veit auðvitað aldrei hvað virkar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir