Samskot Hjördísar Ölfu eru enn eitt sparnaðarráð hennar

Hjördís Alfa Eyjólfsdóttir var í Dreifaranum fyrir skömmu þar sem hún kynnti nokkrar spennandi sparnaðarleiðir fyrir jólin. Hún fékk svo góðar undirtektir frá alls kyns fólki að hún hafði samband við Dreifarann og sagðist mega til með að lauma topp-síkret sparnaðarráði til lesenda.

Hvað er að frétta Hjördís, hvernig lögðust jólin í þig? -Þetta tókst alveg ljómandi vel, þakka þér fyrir, ég er búin að ná í helling af kortum til baka.

Gott mál, en hvað segirðu, ertu með eitthvað spennandi sparnaðarráð fyir lesendur Dreifarans? -Jaaá, jahá. Það tengist nefnilega gamlárskvöldinu.

Jæja, segðu okkur frá. -Það skal ég gera. Mér finnst svo rosalega gaman að skjóta upp rakettum og sjá þá springa svona fallega á svörtum vetrarhimninum. Krakkarnir segja að ég fái eitthvað -kikk- út úr þessu en ég veit ekki hvað þau eru að fara. Lengi vel lét ég það duga að horfa á raketturnar hjá nágrönnunum, já eða bara öllum þú skilur, en svo þegar ég sá geimrakettuna...

Geimrakettu? -Já, eða geim... hérna... flaugina, geimflaugina Columbiu minnir mig, flutta á þakinu á flugvél þá fékk ég þessa frábæru hugmynd.

Núnú? -Já, ég nefnilega keypti nokkrar rakettur þessi áramót eftir að ég sá myndir af geimflauginni og ég endurnýti raketturnar mínar aftur og aftur. Ég er semsagt búin að eiga sömu raketturnar síðan þá en samt alltaf skotið þeim á loft. Alveg eins og með geimflaugina.

Nei hættu nú, þetta er ekki séns Hjördís? -Jú væni minn. Ég fer bara í garðinn til Lúllu vinkonu minnar og fæ að festa raketturnar mínar á þeirra hjónanna, bind þær vandlega saman, hún er með svo risastórar rakettur alltaf, maðurinn hennar, hann Jón Kristinn, er með svo agalega jeppadellu og er allur fyrir eitthvað svona. En athugaði að ég gæti þess auðvitað að merkja raketturnar mínar vel og vandlega, skrifa nafnið mitt og símanúmer og jafnvel heimilisfang ef það er pláss. Svo skjótum við þessu upp í loftið og svo förum við börnin og barnabörnin strax í morgunsárið á nýársdegi og leitum í görðum og götum að rakettunum mínum. Ég segi það ekki að það hefur kannski ein og ein týnst og sumar eru nú orðnar svolítið lemstraðar.

En hvað segir fólk við því að þið séuð að leita í görðum? -Það eru nú fæstir vaknaðir þegar við erum að þessu en við tökum með okkur eitt og annað drasl þannig að fólk er nú bara þakklátt.

Er þetta nú ekki tóm vitleysa Hjördís? -Nei, síður en svo væni minn. Ég skýt rakettunum mínum á loft um hver áramót og tek þátt en er ekki bara áhorfandi eins og sumir. Maður verður að vera með.

En hvað með björgunarsveitirnar? -Hvað með þær? Ég held þær eigi nóg af rakettum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir