Sérstæðar nágrannaerjur á Blönduósi

Upp hafa risið hatrammar deilur milli tveggja nágranna á Blönduósi. Ekki snýr deilan að hávaðamengun, rótarskotum aspar eða neinu slíku, heldur snýst deila þeirra um ferðir snigla og ánamaðka á milli lóðanna.

Oddur Oddbjörnsson sagði í samtali við Dreifarann að hann teldi að það sem væri innan hans lóðarmarka, ætti hann skuldlaust. Hann sakar Áka Oddbjörnsson, sem þó er ekki bróðir Odds, nágranna sinn, um að stela af sér bæði ánamöðkum og sniglum sem fara á milli lóðanna. – Hann lokkar þá yfir lóðarmörkin með einhverjum efnum og æti hlýtur að vera, segir Oddur. - Með þessu stelur hann því sem er með réttu mín eign og ég hef kært þetta til lögreglunnar. Þar segjast menn ekkert geta gert, því ánamaðkar og sniglar geti sannarlega farið frjálsir ferða sinna á milli lóða og engin lög sem nái yfir það, en ég blæs á það, sagði Oddur þungur í skapi. – Ég hef reynt að ræða á góðum nótum við Áka og reynt að fá hann til að skila aftur þeim möðkum og sniglum sem hafa farið yfir á hans lóð, en hann hlustar ekki á mig og kallar mig allskonar nöfnum.

Áki Oddbjörnsson sagði í samtali við Dreifarann að Oddur væri bara klikkaður, hann væri ekkert að gera til að lokka þessi skriðdýr yfir til sín og þau vildu bara greinilega miklu frekar vera hjá honum en Oddi, hver svo sem ástæðan væri fyrir því. Hann sagðist ekki hafa áhyggjur af lögsókn Odds en vildi að öðru leyti ekki tjá sig meira við Dreifarann af ótta við að skaða hagsmuni sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir