Synti út Hrútafjörðinn en ekki þvert yfir

Grétar Finnbjörnsson lenti í honum kröppum á dögunum þegar hann hugðist synda þvert yfir Hrútafjörðinn. Misreiknaði hann sundið svo illilega að hann synti eftir firðinum endilöngum en ekki þverum. Að sögn kunnugra eru þessi mistök einsdæmi.

Grétar lagði upp úr fjarðarbotninum ásamt föruneyti og hugðist með þessu komast í sögubækurnar en aldrei er vitað til þess að synt hafi verið yfir Hrútafjörðinn áður. En eitthvað hefur farið úrskeiðis í undirbúningnum, því Grétar synti út eftir firðinum og var að lokum hirtur upp í bát aðstoðarmanna sinna, enda aðframkominn eftir langt sund.

-Þetta var eitthvað skrýtið, sagði Grétar við Dreifarann. –Ég taldi mig hafa skoðað þetta vel á korti og taldi bestu leiðina vera að synda frá ströndinni aðeins norðan við Staðarskála og yfir, en ég koma aldrei að landi hinum megin, sagði Grétar. Hann sagðist hafa haldið ótrauður áfram að synda, en áttað sig svo á því að lokum að það hlyti eitthvað að hafa farið úrskeiðis í útreikningum hans, því það var alveg sama hvað hann synti mikið, hann kom aldrei að landi. –Ég var búinn að reikna það út að þetta gæti tekið mig um klukkutíma að synda þarna yfir, en eftir þrjá tíma fóru að renna á mig tvær grímur og á endanum bað ég félaga mína um að taka mig um borð í bátinn. Þegar þangað kom og ég fór að líta í kring um mig, sá ég að ég var bara á beinni leið út á Húnaflóann og hafði ég þá synt eftir firðinum endilöngum en ekki þverum, sagði Grétar. Hann sagðist ekki átta sig á því hvað hefði farið úrskeiðis, en kunnáttumenn á svæðinu telja að Grétar hafi ekki tekið með í reikninginn að Staðarskáli opnaði á nýjum stað fyrir tveimur árum og hann hlyti að hafa verið með gamla sundáætlun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir