Vill ekki láta banna sexið á netinu

Guðjón Heiðar Sigurjónsson verslunarstjóri (66) setti sig í samband við Dreifarann á dögunum og var talsvert mikið niðri fyrir. Guðjón Heiðar er mikill áhugamaður um silungsveiði í vötnum en þó það fari ekki hátt eru kannski einhverjir sem vita að hans helsta ástríða eru tölur.

Hvernig kom þessi ástríða fyrir tölum eiginlega til Guðjón? -Ég veit það ekki.

Nú? -Nei, ég hef ekki hugmynd um hvers vegna eða hvenær ég fékk tölur á heilann.

Hvernig lýsir þetta sér? -Nú ég er bara upptekinn af tölum. Sem krakki var ég að skrá niður bílnúmer á ökutækjum sem áttu leið framhjá heimili mínu og ég á eitthvað um 153 stílabækur fullar af númerum, það er oft gaman að fletta þeim, sömu númerin koma jafnvel fyrir aftur og aftur. Ég safna líka reiknivélum og hér í vinnunni hef ég sérstakt dálæti á að leggja saman kreditkortanótur.

En þú ert svo áhyggjufullur núna segirðu, hvað er eiginlega í gangi? -Það er hann Ögmundur, ég held að hann sé alveg að ganga af göflunum.

Hvað er með Ögmund? -Hvað og hvað, ég skal nú segja þér það. Hann er nú bara að hugsa um að banna sexið á netinu, hann ætlar bara að banna það skal ég segja þér, BANNA ÞAÐ!!

Og er það ekki þjóðþrifamál? -Að banna sexið? Nei hættu nú. Ég held að honum verði ekki kápan úr því klæðinu. Sexinu verður ekki eytt svo auðveldlega á netinu. Ég meina; einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sjö, átta, níu og tíu. Það verður ekkert líf ef það er ekki sex, það sjá það allir í hendi sér. Þetta gengur aldrei upp, góði. Ég meina; er ég þá ekki 66 ára á netinu? Hahahahaha... neinei, þetta gengur aldrei upp hjá manninum.

Ég held að þú sért að misskilja eitthvað Guðjón. -Neinei, ég er ekki að misskilja eitt eða neitt, það verður að draga manninn til ábyrgðar. Það má ekki eyða sexinu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir