14 svæði af 22 samþykkt sem þjóðlendur

Óbyggðanefnd kvað á föstudaginn upp úrskurði í ágreiningsmálum um 22 þjóðlendur í Húnavatnssýslu vestan Blöndu ásamt Skaga. Fallist var á kröfur ríkisins um að fjórtán af þessum svæðum yrðu þjóðlendur en átta þeirra var hafnað.

Þjóðlendur eru í eigu ríkisins en það eignarhald er takmarkað, ef bændur eiga afrétt á svæðinu. Hafa þeir þá rétt til að reka þangað búfé og veiða í ám og vötnum. Talsverð silungsveiði er á Skaga auk þess sem laxveiði er í Laxá í Skefilstaðahreppi, en bæði svæði verða að hluta þjóðlendur samkvæmt hinum nýja úrskurði. Fuglaveiðar eru heimilar á þjóðlendum, hvort sem bændur eiga þar afrétt eða ekki.

Fallist var á að almenningur á Skaga, Skrapatunguafrétt, ágreiningssvæði vegna Fannlaugarstaða, ágreiningssvæði vegna Skálahnjúks, Auðkúluheiði, Forsæludalskvíslar, landsvæði sunnan Grímstunguheiðar, Lambatungur, landsvæði sunnan Haukagilsheiðar og Lambatungna, hluti Kornsártungna, austurheiði Víðidalstunguheiðar, landsvæði sunnan Víðidalstunguheiðar, Húksheiði og Staðarhreppsafréttur yrðu þjóðlendur.

Kröfum um að Reynistaðarafrétt,Grímstunguheiði, Haukagilsheiði, Sauðadalur, vesturheiði Víðidalstunguheiðar, Aðalbólsheiði, Efranúpsheiði og Breiðabólsstaðarafrétt/ Engjabrekka yrðu þjóðlendur var hins vegar hafnað. Yfirlit yfir þjóðlendur á svæði 8 má sjá á vef óbyggðanefndar.

Hægt er að kæra úrskurði óbyggðanefndar til dómstóla innan sex mánaða frá birtingu þeirra í Lögbirtingablaðinu. Um 60 hæstaréttardómar hafa fallið í slíkum málum og er algengara að hæstiréttur hafi staðfest úrskurði nefndarinnar en snúið þeim við.

Fleiri fréttir