24,7% niðurskurður á tveimur árum
Í stað þess að þurfa að skera niður um tæp 30% á næsta ári mun heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki þurfa að skera niður um 24,7% á næstu tveimur árum sem er að sögn, Hafsteins Sæmundssonar forstöðumanns, mikið kjaftshögg fyrir samfélagið í Skagafirði.
Heildarágóði, ef svo má að orði komast, kröftuglegra mótmæla heimamanna er því leiðrétting upp á rétt tæp 6% og ljóst að stofnunin mun áfram vera í hópi þeirra sem mest þurfa að skerða starfsemi sína.
-Hvert prósent í niðurskurði þýðir í dag eitt stöðugildi því við erum búin að skera niður allt annað sem hægt er að skera. Það var því þungt hljóðið í starfsfólki á fundi sem haldinn var með starfsmönnum hér í gær, segir Hafsteinn.
Samkvæmt heimildum vefsins má gera ráð fyrir að draga þurfi verulega úr þjónustu bæði hvað varðar endurhæfingu og eins á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunarinnar eigi reksturinn að haldast innan ramma fjárlaga næstu tveggja ára.