50 ára afmæli Húnavallaskóla fagnað í sumar

Húnavallaskóli á 50 ára afmæli á þessu ári og verður af því tilefni efnt til afmælishátíðar í sumar. Fyrrum nemendum, starfsfólki og velunnurum skólans er boðið til fagnaðarins sem halda á laugardaginn 6. júní nk.

Hátíðardagskrá hefst klukkan 14:00 og um kvöldið verður hátíðarkvöldverður og skemmtidagskrá. Gestir eru beðnir að skrá þátttöku í kvöldverðinn fyrir 25. maí á netfangið 50ara@hunavallaskoli.is. Fyrrum nemendur og starfsfólk er einnig beðið að senda myndir frá þeim tíma sem þeir dvöldu á Húnavöllum á sama netfang en hugmyndin er að láta myndir rúlla á tjaldi meðan á hátíðinni stendur.

Í auglýsingu um viðburðinn á Facebooksíðunni Sveitin okkar – Húnavatnshreppur, kemur fram að góð aðstaða sé á tjaldsvæði við skólann með rafmagni og snyrtiaðstöðu. Einnig er hægt að fá gistingu á Hótel Húna en hana þarf að panta fyrir 15. mars þar sem pláss er takmarkað. Gistingu skal panta í síma 691-2207 eða á gyda@hotelhuni.com.

Á heimasíðu Húnavallaskóla segir um skólann: „Húnavallaskóli stendur við Reykjabraut. Skólinn þjónar íbúum Húnavatnshrepps, bygging skólahússins hófst sumarið 1965,  skólinn var svo settur í fyrsta sinn þann 28. október 1969 og formlega vígður 7. nóvember 1970. Upphaflega var skólinn rekinn sem heimavistarskóli,  heimavist var lögð niður í áföngum á árunum 1980 til 1982. Síðan þá hefur verið um heimaakstur nemenda að ræða.  Nemendafjöldi við skólann hefur orðið mestur um það bil 180.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir