252 millj. króna rekstrarhagnaður Svf. Skagafjarðar

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2016 var lagður fram til seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar sl. mánudag. Rekstrartekjur námu á árinu 4.917 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.239 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.314 millj. króna, þar af A-hluti 3.913 millj. króna.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að rekstrarhagnaður A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi verið 603 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 326 millj. króna. Afskriftir eru samtals 189 millj. króna, þar af 105 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 257 millj. króna, þ.a. eru 192 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A og B hluta á árinu 2016 er 252 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta er er jákvæður um 43 millj. króna.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A og B hluta voru í árslok samtals 8.099 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 6.021 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2016 samtals 6.093 millj. króna, þar af hjá A-hluta 4.875 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 3.533millj. króna hjá A og B hluta auk 556 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.007 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 25%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.158 millj. króna í árslok og hækkuðu á milli ára um 101 millj. króna nettó.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 551 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 308 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A og B hluta er 633 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2016, 226 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 432 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 706 millj. króna, handbært fé hækkaði um 149 millj. króna á árinu og nam það 195 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán og skuldbreytingar voru að fjárhæð 665 millj. króna.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir oddviti Skagafjarðarlistans tók til máls og lagði fram bókun ásamt Bjarna Jónssyni, oddvita VG og óháðra. Í henni kemur m.a. fram að þrátt fyrir ágæta niðurstöðu má sjá viðsnúning á mörgum sviðum, án þess þó að gripið hafi verið til sérstakra aðgerða af hálfu sveitarstjórnar eða íbúum fjölgað. Þá segja þau að ekki sé hægt að treysta á að ytri skilyrði og efnahagsástand reynist sveitarfélaginu hagstæð til lengri tíma litið og því brýnt að sveitarstjórn og nefndir sameinist um vinnu við að tryggja enn betur rekstur sveitarfélagins og þjónustu. Samhliða því þarf að styrkja byggðina, innviði og tekjur sveitarfélagsins.

Fleiri fréttir