80 ár frá stofnun NLFÍ á Sauðárkróki

Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) fagnar 80 ára afmæli sínu í dag en félagið var stofnað á Sauðárkróki 5. júlí árið 1937. Í tilefni tímamótanna bauð stjórn félagsins til veislu á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.
Hátíðin var sett af veislustjóra og formanni afmælisnefndar, Geir Jóni Þórissyni, en hann flutti einnig ávarp Gunnlaugs K. Jónssonar, forseta NLFÍ, sem ekki átti heimangengt. Jón Ormar Jónsson flutti fyrirlesturinn „Jónas Kristjánsson, læknir á heimavelli“. Voru bæði ávörpin afar fróðleg og lýsandi fyrir framsýnan baráttumann sem Jónas var.
Eftir tónlistarflutning þeirra Sigvalda Gunnarssonar og Rögnvaldar Valbergssonar var boðið upp á veitingar að hætti Náttúrulækningafélagsins, myndbrot sýnd úr heimildamynd sem verið er að gera um Jónas.
Að lokum var blómsveigur lagður að minnisvarða um þá sem stóðu að stofnun Náttúrulækningafélags Íslands árið 1937.