Á Brúarvöllum - Byggðasögumoli

Brúarvellir við Grundarstokksbrú árið 1977. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Brúarvellir við Grundarstokksbrú árið 1977. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.

  Á bakkanum austan Grundarstokksbrúar var vorið 1938 reistur lítill timburskúr á varðgirðingunni sem lögð var meðfram Vötnunum til að hefta framgang mæðiveikinnar austur yfir Héraðsvötn. Þar var hlið á þjóðveginum og varsla við hliðið allt að sjö mánuði á ári, frá vori fram á síðhaust. Jónas Jónasson, lengi bóndi á Syðri-Hofdölum, hafði brugðið búi vorið 1936 og fékk nú starf við hliðvörsluna á sumrin. Var hann þar samfleytt í 18 ár, fram til haustsins 1955, en hljóp þó enn í skarðið fyrir eftirmann sinn nokkur ár til viðbótar.

Jónas var skemmtunarmaður mikill. Skáldskapur og bókmenntir voru hugðarefni hans og við hliðvörsluna gáfust loks stundir til að sinna þessum áhugamálum með lestri og kveðskap. Hann var snjall hagyrðingur og ritaði æviminningar og frásagnarþætti sem gefnir voru út á bók 1979 undir nafninu Hofdala-Jónas. Sjálfsævisaga. Frásöguþættir. Bundið mál.

Varðskúrinn á Grundarstokki var oft kallaður Brúarvellir, þangað komu margir og var oft glatt á hjalla, vísur gengu milli manna og urðu sumar fleygar. Frægust hefur sjálfsagt orðið þessi stemma Jónasar sem enn er mikið sungin á gleðimótum Skagfirðinga:

Bregst ei þjóð á Brúarvöllum
Braga g1óð sem aldrei dvín
skagfirskt blóð er í þeim öllum
sem elska fljóð og drekka vín.

/Byggðasaga Skagafjarðar 4. bindi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir