Ábending til hunda- og kattaeigenda
Sveitarfélagið Skagafjörður bendir á það á vef sínum að varptími fugla er hafinn og eru hunda- og kattaeigendur beðnir að taka tillit til þess. Þeim tilmælum er beint til kattaeigenda að halda köttum sínum innandyra á nóttunni og hengja bjöllur á hálsólar þeirra. Minnt er á að kettir eru dugleg veiðidýr sem geta haft mikil áhrif á stofn þeirra fugla sem verpa í nágrenni við mannabústaði ár hvert. Eru því kattaeigendur vinsamlega beðnir að fylgjast með köttum sínum yfir varptímann og þar til ungar verða fleygir. Einnig eru hundaeigendur beðnir um að sleppa ekki hundum sínum lausum á varpsvæðum.
Á Visindavefnum segir að líklega sé hin sterka veiðihvöt kattarins ástæða þess að menn tóku að halda ketti fyrir árþúsundum og hafi þeir gegnt stóru hlutverki í korngeymslum og hlöðum við að halda nagdýrum í skefjum. Þrátt fyrir að kettir séu í flestum tilfellum haldnir sem gæludýr haldi þeir rándýrseðli sínu og þótt þeir séu saddir og sælir komi það ekki í veg fyrir að þeir haldi til veiða, eðlið sé það sterkt.
Áhugasömum er bent á að kynna sér samþykkt um hunda- og kattahald í Sveitarfélaginu Skagafirði sem finna má hér.