Áburðarverksmiðja í Austur-Húnavatnssýslu?
HÁKJARNI ehf., félag um könnun á forsendum til áburðarframleiðslu var stofnað á Blönduósi sl. mánudag. Stofnaðilar eru Byggðasamlag um atvinnumál í Austur-Húnavatnssýslu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Saga Capital fjárfestingarbanki og Ingimundur Sigfússon.
Markmið félagsins er gera úttekt á hagkvæmni áburðarframleiðslu hér á landi með umhverfisvænum orkugjafa, vinna að markaðsathugunum og leita eftir erlendum samstarfsaðilum. Helstu forsendur fyrir hugmyndum um áburðarframleiðslu eru að vetni sem unnið er með rafgreiningu flokkist undir orkufrekan iðnað og forsendur hafi breyst íslenskri orku í hag í samanburði við að nota gas til framleiðslunnar.
Í stjórn félagsins voru kjörnir: Þorsteinn Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem er formaður, Adolf H.Berndsen oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar og Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri á Blönduósi. –Forathugun á málinu hefur gefið það til kynna að þetta kunna að vera fýsilegur kostur og með stofnun þessa félags er ætlað að kanna enn frekar hvort að þetta sé raunhæfur möguleiki, segir Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi. Iðnaðarráðuneytið og landbúnaðar -og sjávarútvegsráðuneytið hafa verið upplýst um aðdraganda stofnunnar félagsins en það var ráðgjafafyrirtækið AtvinnuLífsinsSkóli sem vann að forkönnun málsins fyrir hönd heimamanna.

