Að afloknu prófkjöri
Kæru norðlengingar, nú að afloknu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og í aðdraganda landsfundar langar mig til að þakka þeim sem studdu við bakið á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um liðna helgi. Þrátt fyrir að markmið mitt um að ná 2. sæti listans hafi ekki náðst, þá breytir það í engu áformum mínum um að vinna hér eftir sem hingað til að hagsmunum svæðisins, hvort sem þar er um að ræða áframhaldandi vegabætur, bætt fjarskipti eða starfsumhverfi atvinnulífsins og þar með landbúnaðarins. Í þessum efnum verður ekki gefið eftir og það er ljóst að listi Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar er þannig samsettur að fullur skilningur og stuðningur er við þessi brýnu hagsmunamál svæðisins.
Nú um helgina göngum við Sjálfstæðismenn til landsfundar og kjósum okkur nýjan formann. Þar mun undirritaður styðja við bakið á Bjarna Benediktssyni, sem ég tel gæddan þeim kostum sem formanni eru nauðsynlegir, annars vegar til að leiða Sjálfstæðisflokkinn og hins vegar til að hafa skilning á því til hvaða aðgerða er nauðsynlegt að grípa til að koma hjólum efnahagslífsins á hreyfingu.
Í mínum huga eru fyrst og fremst tveir eiginleikar sem næsta ríkisstjórn þarf að hafa til að bera, annars vegar er það að geta tekið erfiðar ákvarðanir og hins vegar að standa með atvinnulífinu hvað sem gengur á. Ef fyrirtækin í landinu standa ekki í lappirnar gildir í mínum huga einu hvað gert er fyrir þau heimili sem eru illa stödd. Eigi næsta ríkisstjórn að mæta þeim tveimur skilyrðum sem ég nefndi hér á undan, þá treysti ég ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum innanborðs mun betur en samsteypustjórn vinstri flokka.
Að lokum vil ég aftur þakka fyrir ágætan stuðning í prófkjörinu og hvetja norðlendinga til að fylkja sér um lista Sjálfstæðisflokkins í kosningunum sem framundan eru.
Með góðri kveðju,
Bergþór Ólason
Akranesi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.