Aðalfundur Tindastóls – Breytingar á skipun stjórnar

Helga Dóra Lúðvíksdóttir fékk afhentan starfsbikar UMFT fyrir góð störf innan félagsins. Aðsend mynd.
Helga Dóra Lúðvíksdóttir fékk afhentan starfsbikar UMFT fyrir góð störf innan félagsins. Aðsend mynd.

Vel var mætt á aðalfund Tindastóls sem haldinn var þann 18. maí sl. í Húsi frítímans. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf en bornar voru upp tillögur að lagabreytingum sem voru teknar fyrir og niðurstaða fékkst sem leiddi til þess að kosningu í stjórn aðalstjórnar Tindastóls var frestað. Stærsta breytingin er hvernig aðalstjórn skuli skipuð og kosið í hana.

Hin nýja 18. grein sem fjallar um aðalstjórnina er svohljóðandi:

,,6. kafli – Aðalstjórn 18.grein.
Aðalstjórn félagsins skipa kjörinn formaður og gjaldkeri sem eru óháðir stjórnum deilda félagsins og meðstjórnendur, sem eru formenn allra deilda innan UMFT eða fulltrúi hans. Leitast skal við að a.m.k. einn stjórnarmaður fyrri stjórnar verði í nýrri stjórn sem kosin er á hverjum aðalfundi til eins árs í senn. Til fyrsta fundar aðalstjórnar skal boða innan 15 daga frá aðalfundi félagsins þar sem leggja skal fram starfsáætlun fyrir allt árið og tímasetja fundi. Aðalstjórn skal einnig funda eftir þörfum. Aðalstjórn UMFT fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. 2/3 hluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn. Óski stjórn deilda eftir fundi við aðalstjórn skal boða til hans innan viku. Halda skal sérstaka gjörðabók um aðalstjórnar fundi.

Formaður og gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Formaður stjórnar fundum eða skipar aðra félagsmenn til þess. Ritari heldur gjörðabók félagsins og ritar fundargerðir. Gjaldkeri heldur reikninga, innheimtir tekjur og greiðir gjöld félagsins. Óheimilt er að skuldsetja félagið þess nema með samþykki meirihluta aðalstjórnar. Reikningsár félagsins er almanaksárið 1. janúar til 31. desember.“

Að sögn Jóns Kolbeins Jónssonar, formanns félagsins, gaf fráfarandi stjórn ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en boðað verður til framhaldsaðalfundar Tindastóls þann 11. júní nk. klukkan 20:00 í Húsi frítímans og verður eina mál á dagskrá kosning formanns og gjaldkera í stjórn aðalstjórnar.

Af öðrum málum aðalfundar má nefna að starfsbikar UMFT var afhentur Helgu Dóru Lúðvíksdóttir fyrir hennar störf innan félagsins. Þá var tekið fyrir stofnun nýrrar deildar, rafíþróttadeildar Tindastól og kynntu forsvarsmenn hennar starfið og hvað er framundan hjá deildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir