Aðeins sjónvarpsgreiðan stóð upp úr

Hér er verið að moka af þaki sumarhússins. Á fyrstu myndinni í myndasyrpunni hér að neðan sést aðkoman að bústaðnum 14. mars sl. þegar aðeins sjónvarpsgreiðan stóð upp úr. Síðasta myndin sýnir bústaðinn í sumarskrúða. AÐSENDAR MYNDIR
Hér er verið að moka af þaki sumarhússins. Á fyrstu myndinni í myndasyrpunni hér að neðan sést aðkoman að bústaðnum 14. mars sl. þegar aðeins sjónvarpsgreiðan stóð upp úr. Síðasta myndin sýnir bústaðinn í sumarskrúða. AÐSENDAR MYNDIR

Víðast hvar á Norðurlandi hefur kyngt niður snjó í vetur og nú þegar líða fór á veturinn og veðrið heldur að skána þá fóru sumarhúsaeigendur að kanna aðstæður við hús sín. Í sumum tilfellum þurfti hreinlega að leita að bústöðunum og á samfélagsmiðlum hefur mátt sjá myndir af fólki að grafa bústaði sína upp en stundum hefur ekki sést grilla í þá í snjónum. 

Einn slíkur bústaður er staðsettur í landi Ljótsstaða í minni Unadals í austanverðum Skagafirði, ekki langt frá Hofsósi. Það hús er í eigu Jóseps Þóroddssonar á Sauðárkróki og barna hans; Ólafar, Jóns Þórs og Birgis Heiðars. Feykir hafði samband við Jón Þór, sem starfar sem framleiðslustjóri hjá Mjólkursamlagi KS, og spurði hvernig aðstæður hefðu verið og hvort þau hefðu haft áhyggjur af húsinu í vetur. „Við höfðum verið að fylgjast með snjóþyngslum meira og minna frá miðjum desember en 14. mars fór ég í leiðangur og komst að því að bústaðurinn var á kafi í snjó,“ segir Jón Þór 

„Aðeins sjónvarpsgreiðan stóð upp úr. Þá kallaði ég á Björgunarsveitina á Hofsósi og þeir sendu mannskap með skóflur og lítinn snjóblásara til að hreinsa þakið. Eftir þann dag þá var búið að hreinsa þakið að mestu en mikill snjór var allt í kring. Þá var mesta snjódýpt ofan á þakið um 2,5 metrar. Fimmtudaginn 19. mars var allt farið í sama farveg, þá hafði snjóað duglega og var Björgunarsveitin kölluð út aftur ásamt fjölda sjálfboðarliða.“ 

Hvernig gekk að hreinsa frá bústaðnum? „Sennilega hafa verið um 15 manns sem unnu allan fimmtudaginn við að bjarga bústaðnum. Við fengum að láni snjótroðara frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík, en hann var staddur í Pardusi á Hofsósi vegna viðhalds. Hann gat fjarlægt mikið af snjó sem hafði safnast saman fyrir aftan húsið og gerði það að verkum að auðveldara var að losna við snjóinn af þakinu.“ Svo erfiður var snjórinn viðureignar að jafnvel þurfti að grípa til þess raðs að nota vélsög til að búta hann niður og voru klumparnir síðan dregnir burt á sleða.

Hafið þið séð svona mikinn snjó við bústaðinn áður? „Þetta er mesti snjór sem hefur komið þarna í tæplega 50 ár. Það kom mikill snjór árið 1995 en ekki svona mikill.“   

Hafði húsið skemmst í þessu fargi? „Við gerum okkur ekki fulla grein fyrir skemmdum en þaksperrur virðast hafa brotnað og mögulega hefur það sigið pínu – það kemur betur í ljós með vorinu.“

Verður farið í bústaðinn á sumardaginn fyrsta? „Já, við komum til með að vera í bústaðnum á sumardaginn fyrsta, höfum reyndar verið alla páskana og eftir vinnu all flesta virka daga til að moka snjó. Ennþá er snjór við pallin við heita pottinn, um þrír metrar á þykkt þannig að það verður nóg að gera,“ segir Jón Þór en hann vill að lokum senda þakklætiskveðjur fyrir hönd fjölskyldunnar til Björgunarsveitarinnar og allra sjálfboðaliðanna sem tóku þátt í að hreinsa frá bústaðnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir