Æðri máttur - Áskorandi Marta Karen Vilbergsdóttir Blönduósi

Í nútímasamfélagi hafa trúarmynstur breyst. Hægt er að trúa á hvað sem er eða ekki neitt. Mig langar að skrifa nokkur orð um æðri mátt og hvað hann hefur gert fyrir mig. Það skemmtilega við æðri mátt er að hann getur verið hvað sem er. Æðri máttur getur verið Jesú, hafið, kærleikurinn, eitthvað sem þú getur ekki skilgreint og allt þar á milli. Spurningin er bara hvað hentar okkur sjálfum og svo að leyfa öðrum að finna það sem hentar þeim.

Til að byrja með er hægt að spyrja sig hvort við sjálf séum allsráðandi, hvort heimurinn snúist í kring um okkur. Ef svarið er nei þá er eitthvað æðra, hvað svo sem það er. Þar með erum við ekki endilega að ræða um skipulögð trúarbrögð.

Ég kalla minn æðri mátt Guð, einfaldlega því það er þægilegt þriggja stafa orð. Eftir að æðri máttur kom inn í mitt líf hafa orðið miklar breytingar hjá mér. Fyrir mér er æðri máttur allt það góða sem lífið hefur upp á að bjóða og er máttur hans mikill. Lífið varð einhvern veginn að skemmtilegri áskorun en ekki afplánun.

Ekkert er einskis virði hjá mínum æðri mætti, af mistökum kemur lærdómur. Þau voru nauðsynleg til að ég geti verið þar sem ég er í dag. Af sársauka kemur reynsla, þjáningin kennir mér sjálfsaga og öll mín mistök kenna mér auðmýkt gagnvart sjálfri mér. Gaman getur verið að staldra við á erfiðum tímum og velta því fyrir mér hvað æðri máttur er að sýna mér. Þetta er lykillinn að þeim þroska sem ég hef fengið að öðlast.

Mikilvægt er að hafa góðan æðri mátt, refsandi guð er ekki æskilegur, aðeins lexíur sem læra má af. Þó er margt utan máttar hans, sem dæmi má nefna réttindakerfi þjóða, slys og banvænir sjúkdómar. Hann kemur ekki í veg fyrir þessa hluti en alltaf er hægt að læra. Þar með þakklæti og æðruleysi sem oft eru vanmetin hjá okkur.

Annað áhersluatriði sem hægt er að nefna er að vera í Guðs vilja en ekki sínum. Með því gerum við hluti og/eða erum til staðar fyrir aðra skilyrðislaust. Allt fer á þann veg sem það á að fara og því verð ég að treysta. Sá vegur er ekki alltaf sá sem ég vil, en allt verður í lagi og óttinn hverfur. Í dag fæ ég oftast að vera manneskjan sem ég vil vera, í þeirri meiningu að vera sú manneskja sem Guð vill að ég sé. Það er afskaplega gefandi verkefni og gefur mér færi á að verða betri manneskja í dag en ég var í gær.

Ég skora á Ágústu Rós Ingibjörnsdóttur að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 12. tbl. Feykis 2021

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir