Ærslabelgurinn á Króknum formlega vígður

Börnin í skólahóp Ársala kunnu vel að meta ærslabelginn sem loksins er risinn á Króknum. Mynd: PF.
Börnin í skólahóp Ársala kunnu vel að meta ærslabelginn sem loksins er risinn á Króknum. Mynd: PF.

Í morgun var formlega tekinn í notkun svokallaður ærslabelgur sem hollvinasamtökin Leikum á Króknum hefur fjármagnað með ýmsum styrkjum frá fjölmörgum aðilum. Belgurinn er staðsetur við Sundlaug Sauðárkróks og mun verða útbelgdur frá klukkan 10 á morgnana til 10 á kvöldin.

Með tilkomu ærslabelgsins rættist langþráður draumur margra barna og ekki síst Maríu Óskar Ólafsdóttur sem skrifaði félags- og tómstundanefnd ítrekunarbréf sumarið 2018 þar sem hún upplýsir að það vanti ærslabelg á Krókinn, bæði fyrir bæjarbúa og gestina sem koma hingað á tjaldsvæðið.

María Ósk Ólafsdóttir tók fyrstu hoppin við vígslu ærslabelgsins í morgun. Mynd af FB Svf. Skagafjarðar.

„Það er ekkert í boði fyrir tjaldgestina okkar. Það eru ekki allir með bílpróf sem geta farið til dæmis til Hofsóss eða Varmahlíðar. Það er mikill áhugi barna og unglinga hér á Króknum. Það væri gaman að fá hoppubelg hingað á Krókinn,“ skrifaði María. Það var því vel við hæfi að María Ósk tæki fyrstu loftköstin við vígsluna í morgun. Í kjölfarið fylgdi svo skólahópur leikskólans Ársala sem greinilega lét sér vel líka.

„Við settum af stað söfnun í byrjun september m.a. áskorunarleik þar sem fyrirtæki og félagasamtök skora á aðra að gefa. Þetta fór hægt af stað en rífandi gangur eftir að belgurinn kom á svæðið og beið eftir því að vera blásinn upp þegar söfnunin kláraðist,“ segir Sigríður Garðarsdóttir í Leikum á Króknum.

Hollvinasamtökin hafa fengið áskorun um að halda áfram að safna fyrir fleiri leiktækjum og tóku þau vel í það verkefni svo haldið verður áfram.

„Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar hafa lagt þessu verkefni lið en án þeirra hefði þetta ekki verið hægt og viljum við senda þakkir til þeirra allra. Það verður gaman að sjá hvaða leiktæki verður fjárfest í næst,“ segir Sigríður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir