Ævintýrið um norðurljósin

Ný barnaópera “Ævintýrið um norðurljósin”  verður frumsýnd á Barnamenningarhátíðinni í Reykjavík, 29. apríl nk. í Ráðhúsinu en verður svo flutt norður yfir heiðar og sýnd daginn eftir í Miðgarði í Varmahlíð á Barnamenningarhátíð Skagfirðinga við upphaf við opnun Sæluviku 2017.

Óperan er byggð á sögu eftir Evgeniu Chernyshovu um ást tröllastelpu og álfadrengs, íkornann Ratatoski, álfadróttninguna, íbúa heimanna níu o.fl. Ást þeirra megnaði að búa til norðurljósin sem við dáumst að á hverjum vetri hér á Íslandi.

Leikgerð er í höndum Guðrúnar Ásmundsdóttur en tónlist eftir Alexöndru Chernyshovu sópransöngkonu og tónskáld sem lífgaði vel upp á tónlistarlífið í Skagafirði fyrir nokkrum misserum.

Þetta er önnur óperan eftir þær Alexöndru og Guðrúnu en árið 2014 frumsýndu þær í konsertuppfærslu óperuna “Skáldið og Biskupsdóttirin” um vináttu Hallgríms Péturssonar og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Síðasta haust frumsýndu þær óperu þeirra í Moskvu í einni frægustu Tónlistarakademíu heimsins, Gnessin, og tókst þeim þá að láta rússneska óperusöngvara syngja á íslensku sem þeir gerðu með prýði.

Í maí verður Alexandra með kynningu á óperunni í Tókýó og kynnir verkið og söguna fyrir japönsku tónlistafólki.

Sýningin í Miðgarði hefst kl. 17:00 sunnudaginn 30. apríl.

Þann 2. maí, verður óperan flutt í Bergi, Hljómahöll, á Barnahátíðinni Reykjanesbæ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir