Af gömlum bílum og aðdáendum þeirra - Gunni Rögg skrifar um sérvitringafund í Skagafirði

Það er sérstök kúnst að búa til mikið úr litlu, en sumum er það lagnara en öðrum. Því var það að lítil hugmynd sem bryddað var upp á skömmu fyrir jól varð að veruleika laugardaginn 6. apríl þegar hópur áhugafólks um gamla bíla úr Eyjafirði heimsótti samskonar sérvitringa í Skagafirði.

Upphafið má rekja til þess að Dúddi áburðarsali hjá SS sá gamla bíla allvíða á bæjarhlöðum í Skagafirði og gerði sér far um að kynnast eigendunum nánar. Úr varð nokkurs konar bræðralag sem aukið hefur samskipti þessara áhugahópa verulega. Því tóku þeir sig til  Agnar á Miklabæ, Jónsi í Miðhúsum og Ragnar í Hátúni, eða kjarninn úr gömlu 17. júní nefndinni, og buðu til hrossakjötsveislu í safnaðarheimili Miklabæjarkirkju. Í takt við gestalistann var matseðillinn nokkuð sérstakur og á eftir saltaða hrossaketinu var boðið upp á ávexti með sykruðum rjóma, íbættum vanilludropum.

Eftir að hafa drukkið kaffi var haldið í Miðhús og Willysinn hans Jónsa grandskoðaður. Þessi vel heppnaði dagur endaði svo á hópakstri stífbónaðra fornbíla sem endurköstuðu bjarma Blönduhlíðarfjallanna á leið sinni í Kakalaskálann. Þar gaf að líta ótrúlega listsköpun fjölmargra erlendra og innlendra listamanna sem undanfarnar vikur hafa unnið við að glæða Sturlungu lífi með áherslu á Þórð Kakala. Allir voru bergnumdir af því stórvirki sem þau hjón í Kringlumýri hafa unnið að undanfarin ár og héldu til síns heima glaðir í sál og sinni.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá deginum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir