Afdalabarn Guðrúnar frá Lundi slær sölumet

Bókin Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi er nú í fyrsta sæti metsölulista Eymundsson verslana og hún er sömuleiðis söluhá hjá öðrum bóksölum. Guðrún var sem kunnugt er Skagfirðingur og kenndi sig við Lund í Fljótum en bjó síðar á Skaga og á Sauðárkróki.

Bókin sem fyrst kom út árið 1950 var um síðastliðinn mánaðamót endurútgefin. Það er fyrsta endurútgáfa á verkum Guðrúnar frá árinu 2000 þegar Dalalíf kom út hjá Máli og menningu.

Afdalabarn er mögnuð saga sem fjallar um einangrun og ást í íslenskri sveit fyrir einni öld síðan. Guðrún var metsöluhöfundur á Íslandi á þriðja aldarfjórðungi 20. aldar en naut þó ekki viðurkenningar fyrir skrif sín. Á síðustu árum hefur bókmenntageirinn á Íslandi endurmetið sögur Guðrúnar enda býr höfundurinn yfir fágætri frásagnargáfu og raunsæislegar lýsingar hennar á sveitalífinu fanga huga lesenda.

Nóbelskáldið Halldór Laxnes var einn fárra sem tók upp hanskann fyrir Guðrúnu frá Lundi á síðustu öld og kallaði hana ævintýrakerlingu íslenskra bókmennta. Hver sá sem les Afdalabarn sannfærist um réttmæti þeirra palladóma.

Útgefandi Afdalabarns er Bókaútgáfan Sæmundur sem rekin er í Bókakaffinu á Selfossi.

Fleiri fréttir