Afleitt veður og færð í dag

Skjáskot af vef Veðurstofunnar, vedur.is, kl. 11:00 í dag.
Skjáskot af vef Veðurstofunnar, vedur.is, kl. 11:00 í dag.

Vetrarfærð og vonskuveður er nú á nánast öllu landinu og eru gular og appesínugular viðvaranir í gildi í öllum landshlutum. Á Norðurlandi vestra hafa flestir vegir verið ófærir í morgun og er svo enn um alla fjallvegi en flestir vegir á láglendi eru orðnir færir þó færðin sé misgóð og veður vont. Í Húnavatnssýslum eru Skagastrandarvegur og vegurinn um Langadal ófærir. Í Skagafirði er vegurinn utan Hofsóss ófær en snjóþekja eða þæfingur á flestum öðrum vegum. Því er skynsamlegast að vera sem minnst á ferðinni og kynna sér vel upplýsingar á vef Vegagerðarinnar ef ætlunin er að fara milli staða.

Allt skólahald í leik-, grunn- og tónlistarskólum á Norðurlandi vestra liggur niðri og íþróttamiðstöðvar í Varmahlíð og á Blönduósi eru einnig lokaðar, svo og Sundlaugin á Hofsósi.

Ekki er útlit fyrir að veður taki miklum breytingum í dag en á morgun á að hægja og draga úr úrkomu. Veðurspá Veðurstofunnar fyrir Strandir og Norðurland vestra er á þessa leið: „Norðan 18-25 m/s og snjókoma. Dregur úr vindi og ofankomu í nótt og í fyrramálið. Norðaustan 8-13 og dálítil él eftir hádegi á morgun, en hægari og úrkomulítið inn til landsins. Frost 0 til 5 stig.“

Öll él birtir þó upp um síðir og í hugleiðingum veðurfræðings á vedur.is segir að eftir rysjótta tíð horfi til betri vegar á næstu dögum því á morgun muni draga úr vindi og útlit sé fyrir úrkomuminni daga með rólegum vindi fram að helgi. Næsta lægð er svo væntanleg á sunnudaginn með rigningu og hlýju veðri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir