Áfram óblíð veður ef marka má þjóðtrúna
Í dag, 25. janúar, er Pálsmessa sem dregur nafn sitt af því að þennan dag á Sál frá Tarsus að hafa mætt Jesú Kristi og snúist til kristinnar trúar, hætt að ofsækja kristna menn og gengið undir nafninu Páll postuli upp frá því. Þessi umskipti Páls eru sögð hafa dregið talsverðan dilk á eftir sér og gætir þeirra enn í veðurfari ef marka má þjóðtrúna sem segir að veðrið á Pálsmessu gefi vísbendingar um veðurfar næstu vikurnar. Ef veður er gott þennan dag, sól og heiðríkja, boðar það frjósaman tíma en ef þungbúið er eða jafnvel snjókoma boðar það óblíða veðráttu eins og segir í þessum vísum sem eru til í nokkuð mörgum tilbrigðum þó efni þeirra sé hið sama:
Ef heiðbjart er og himinn klár
á helga Pálus messu
mun þá verða mjög gott ár
mark skal hafa á þessu.
En ef þoka Óðins kvon
á þeim degi byrgir
fjármissi og fellis von
forsjáll bóndinn syrgir.
Það verða því að teljast slæm tíðindi að ekki virðist ætla að létta til í dag, að minnsta kosti ekki hér í Skagafirðinum.
Sá siður að gefa hrafninum sérstaklega vel á Pálsmessu er þekktur sums staðar á landinu. Átti hann þá ekki að leggjast á lömb bóndans á vorin en það tíðkaðist víða, og tíðkast kannski enn, að gefa bæjarhröfnunum eitthvað í gogginn. Þessi dagur er líka talinn nokkuð varhugaverður hvað ástarsambönd snertir en hætta þótti á að elskendum snerist þá hugur og ekki alltaf til góðs. Þannig að það gæti verið vissara að halda friðinn í dag fremur en aðra daga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.